Innlent

Lögreglumenn lentu í átökum við partýgesti

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögregla hafði í ýmis horn að líta í gærkvöldi og í nótt.
Lögregla hafði í ýmis horn að líta í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Eyþór
Lögreglumenn sem fóru í útkall vegna hávaða í íbúð við Skyggnisbraut í Úlfarsárdal í nótt lentu í átökum við partýgesti sem þar voru staddir.

Er lögreglumenn komu á vettvang voru þar nokkrir ölvaðir aðilar og voru einnig börn í íbúðinni. Lentu lögreglumenn í átökum við fólkið og var einn maður handtekinn á vettvangi og vistaður í fangageymslu, að því er kemur fram í dagbók lögreglu.

Þá segir einnig að eiginkona hins handtekna hafi verið á vettvangi og að síðar hafi komið í ljós að þau búa í annarri íbúð í húsinu. Þar höfðu þau skilið eftir eins árs gamalt barn sitt á meðan þau voru að skemmta sér. Málið var afgreitt með aðkomu Barnaverndar.

Þetta voru ekki einu átökin sem lögreglumenn lentu í í nótt en seint í nótt var ung kona stöðvuð á Skólavörðustíg, grunuð um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Kom í ljós að hún hafði aldrei öðlast ökuréttindi.

Var hún handtekin eftir að hún sparkaði í hné lögreglukona. Konan var vistuð í fangageymslu lögreglu.

Þá þurfti lögregla einnig að glíma við nokkra einstaklinga sem voru ofurölvi, að því segir í dagbók lögreglu, þar á meðal ferðamann sem fékk að sofa úr sér í fangageymslu lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×