Fótbolti

Eduourd tryggði Celtic sigur gegn Rangers

Dagur Lárusson skrifar
Liðsmenn Celtic fagna.
Liðsmenn Celtic fagna. vísir/getty
Odsonne Eduourd skoraði sigurmark Celtic gegn Rangers í stórleik skosku úrvalsdeildarinnar í dag en leikurinn var æsispennandi frá upphafi til enda.

Það var Rangers sem byrjaði leikinn betur því strax á 3. mínútu skoraði Josh Windass og kom sínum mönnum yfir.

Celtic var þó ekki lengi að jafna metin en það gerði Tom Rogic á 11. mínútu og því var allt í járnum.

Liðin skiptust á að sækja en næstu mínúturnar eftir þetta spilaði Rangers vel og náði Daniel Candeias að koma sínum mönnum yfir á nýjan leik en það gerði hann á 26. mínútu. Allt stefndi í það að Rangers færi með forystuna í hlé en þá skoraði Moussa Dembele fyrir Celtic og því var staðan 2-2 í hálfleik.

Celtic varð einum manni færri á 57. mínútu þegar Jozo Simunovic fékk beint rautt spjald. Það kom hinsvegar ekki í veg fyrir það að Edouard skoraði sigurmark Celtic á 69. mínútu.

Eftir leikinn er Celtic með 67 stig á toppi deildarinnar á meðan Rangers er í 2. sæti með 58 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×