Erlent

Bannað að hafa opið á sunnudögum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Bannið er sett á vegna vinnuverndarsjónarmiða
Bannið er sett á vegna vinnuverndarsjónarmiða Vísir/Getty
Umdeild lög sem banna Pólverjum að hafa opið í búðum á sunnudögum hafa nú tekið gildi, the Guardian greinir frá þessu.

Í dag lokuðu margar af stærri matvöruverslunum í Póllandi í fyrsta skipti síðan frjálslynd verslunarlög voru sett á í upphafi tíunda áratugarins.

Verslunarbannið er tilkomið vegna vinnuverndarsjónarmiða en verkalýðshreyfingin Samstaða kallaði eftir því að það yrði sett á til að koma í veg fyrir að vinnuveitendur geti misnotað vinnuafl sitt. Starfsmennirnir eigi rétt á fríi á sunnudögum. Þá eru talsmenn Kaþólsku kirkjunnar hæstánægðir með breytinguna.

Nýju lögin verða innleidd í nokkrum skrefum. Út árið 2018 verður verslunareigendum bannað að hafa opið tvo sunnudaga í mánuði. Árið 2019 verður verslunarbann þrjá sunnudaga í mánuði og því næst verður alhliða bann alla sunnudaga árið 2020 með fáeinum undantekningum eins og rétt fyrir jól og páska.

Skiptar skoðanir eru á nýju lögunum en mörgum finnst vegið að frelsi neytenda á tímum frjálsra viðskipta.

Verslunareigendur óttast breytinguna og segja bannið vera grófa atlögu að verslunarfrelsi. Þeir óttast að óhjákvæmilegar afleiðingar verði atvinnumissir og þá er talið að nýju lögin komi verst niður á nemendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×