Erlent

Tönn útdauðs risahákarls stolið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tönnin var merkilega heilleg sem þykir mjög sjaldgæft þegar um slíkar tennur er að ræða.
Tönnin var merkilega heilleg sem þykir mjög sjaldgæft þegar um slíkar tennur er að ræða. Vestur-áströlsk stjórnvöld
Tönn sem tilheyrði eitt sinn risahákarli hefur verið stolið úr áströlskum þjóðgarði, sem meðal annars er á heimsminjaskrá UNESCO. Tönnin er rúmlega átta sentimetrar á lengd og hafa áströlsk stjórnvöld lítið vilja gefa upp um málið.

Þó er greint frá því í erlendum miðlum að tönnin hafi verið önnur tveggja sem finna mátti á Ningaloo-strönd í vesturhluta Ástralíu. Ströndin er á heimsminjaskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og er hennar alla jafna vel gætt af þjóðgarðsvörðum og vísindamönnum.

Þó það sé hægara sagt en gert að nálgast tennur hins útdauða risahákarls Carcharodon Megalodon er talið ólíklegt að hátt verð fáist fyrir hana á svarta markaðinum.

Talsmaður Ningaloo-strandar segir að starfsmenn svæðisins hafi falið tönnina á nokkuð einangruðu svæði, þangað sem ferðamenn færu alla jafna ekki. Aðeins örfáir heimamenn vissu af tönninni og óttast talsmaðurinn að einhver þeirra hafi sagt aðkomumanni frá staðsetningu hennar.

Þjófurinn hefur þurft að reiða sig á hamar og meitil því tönnin var orðin samgróin steinunum sem hún lá á. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan má bersýnilega sjá hvar tönnin hefur legið í milljónir ára.

Carcharodon Megalodon gat orðið um 18 metrar að lengd og næstum 100 tonn að þyngd. Þeir gátu því orðið umtalsvert stærri en stærstu tegundir núlifandi hákarla.

Þjófurinn hefur þurft að reiða sig á hamar og meitil til að fjarlægja tönnina.Vestur-áströlsk stjórnvöld



Fleiri fréttir

Sjá meira


×