Fótbolti

Sögusagnir um að Kolbeinn fari með íslenska landsliðinu til Bandaríkjanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. Vísir/Getty

Kolbeinn Sigþórsson spilaði meira en klukkutíma með varaliði Nantes um helgina og er greinilega á réttri leið í endurkomu sinni.

Kolbeinn hefur talað sjálfur um draum sinn um að vera með Íslandi á HM í Rússlandi í sumar og fyrsta skrefið í þá átt gæti komið í næsta verkefni landsliðsins.

Kolbeinn hefur ekki spilað með íslenska landsliðinu síðan í leik á móti Frakklandi í átta liða úrslitum Evrópumótsins sumarið 2016.

Hjörvar Hafliðason sagði frá því í Brennslunni á FM957 í morgun að það séu sögusagnir um að Kolbeinn verði með í landsliðshóp Íslands sem fer til Bandaríkjanna seinna í þessum mánuði og spilar vináttuleiki við Mexíkó og Perú.

Leikirnir fara fram 23. og 27. mars en Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, tilkynnir hópinn sinn á föstudaginn.

Í umsögn um varaliðsleikinn hjá Nantes á vefsíðunni planete-fcnantes.com kemur fram að Kolbeinn hafi átt þátt í öðru marki Nantes en liðið vann þar 2-1 sigur á Changé.

Blaðamaður Planete FC Nantes sagði þó í umsögn sinni að Kolbeinni hafi augljóslega verið ryðgaður sem hafi verið skiljanlegt enda næstum tvö ár síðan hann lék síðast með aðalliði félagsins.

Vináttuleikirnir í Bandaríkjunum verða síðustu tveir leikir íslenska landsliðsins áður en Heimir velur lokahópinn sinn á HM. Þetta er því síðasta tækifæri leikmanna til að spila sig inn í HM-hópinn í leik með landsliðinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.