Innlent

Bein útsending: Vísindadagur OR

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hellisheiðarvirkjun mun án efa koma mikið við sögu á Vísindadeginum.
Hellisheiðarvirkjun mun án efa koma mikið við sögu á Vísindadeginum. Vísir/GVA
Rannsóknar- og þróunarverkefni í loftslags- og loftgæðamálum við Hellisheiðarvirkjun hafa hlotið alþjóðlega styrki að fjárhæð um þriggja milljarða króna. Þar af hafa um 250 milljónir runnið beint til vísindastarfs OR en vinna vísindafólksins hefur sparað fyrirtækinu um 13 milljarða króna. Þetta kemur fram í upphafserindi Bjarna Bjarnasonar forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur á Vísindadegi OR, sem er í Hörpu í dag og hefst klukkan 9:00.

Beina útsendingu frá deginum má nálgast hér að neðan.

Í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur er verkefnið CarbFix reifað, sem hófst fyrir um tíu árum síðan. Það felst í að fanga koltvíoxíð úr jarðgufunni sem nýtt er í virkjuninni, blanda það vatni og binda sem steintegund djúpt í iðrum Hellisheiðar. „Verkefnið hefur þótt svo brautryðjandi að aðstandendur þess hafa hlotið fjölda styrkja úr alþjóðlegum samkeppnissjóðum og þar hefur Evrópusambandið verið einna veitulast,“ segir í tilkynningunni.

Þá hefur það að binda jarðhitaloft sem grjót sparað Orkuveitunni „verulegar fjárhæðir. Kostnaðarmat sýnir að hefðbundnar aðferðir við hreinsun brennisteinsvetnisins hefðu kostað að núvirði um 14 milljarða króna. SulFix-aðferðin kostar 1,2 milljarða. Mismunurinn, sparnaður OR af því að vísindafólk fyrirtækisins í samstarfi við aðra þróaði þessa byltingarkenndu aðferð, nemur því tæpum 13 milljörðum króna að núvirði,“ eins og segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×