Innlent

Litlu mátti muna að móðir með börn í bílnum fengi bíl framan á sig á Reykja­nes­brautinni

Birgir Olgeirsson skrifar
Þóra þurfti  að víkja út í kant þegar ökumaður gáði ekki að sér við framúrakstur.
Þóra þurfti að víkja út í kant þegar ökumaður gáði ekki að sér við framúrakstur.
Þóra Kristín Hjaltadóttir, íbúi í Reykjanesbæ, birti í dag myndband sem sýnir gáleysislegan framúrakstur á Reykjanesbraut. Þóra var á leið frá Reykjavík til Reykjanesbæjar fyrr í dag með börnum sínum þegar atvikið átti sér stað.

Þar hafði ökumaður tekið þá ákvörðun að taka fram úr bílum á brautinni en gáði ekki að umferð sem kom á móti. Þar á meðal var bíll Þóru en Þóra neyddist til að aka sínum bíl út í kant til að koma í veg fyrir að úr yrði alvarlegt slys.

Þóra segir í samtali við Vísi að hún hefði hægt á myndbandinu svo það yrði greinilegra um hve mikinn háska akstur væri að ræða. Sjálf segist Þóra hafa verið á um 85 til 90 kílómetra hraða á klukkustund þegar atvikið átti sér stað. Hún segir að auk þess hafi bíll verið kyrrstæður út í kanti skammt frá þeim stað sem þetta átti sér stað, því hefði ekki mátt tæpar standa.

Hún segist aka með myndavél í mælaborðinu öryggisins vegna, ef eitthvað komi upp á er hægt að horfa á upptöku af atvikinu til að fá úr því skorið hvað gerðist.

Þóra segir öryggismál á Reykjanesbrautinni afar slæm og aðeins tímaspursmál hvenær alvarlegt slys muni eiga sér stað. Reykjanesbraut er tvöföld að hluta en Þóra hvetur stjórnvöld til að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautar sem allra fyrst. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×