Erlent

Fá leyfi til að höggva niður þrefalt landsvæði Íslands úr regnskóginum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Náttúruverndarsinnar eru æfir vegna breytinganna.
Náttúruverndarsinnar eru æfir vegna breytinganna. Vísir/Getty
Hæstiréttur Brasilíu hefur staðfest umtalsverðar breytingar á náttúruverndarlögum er lúta að Amazon-regnskógunum. Náttúruverndarsinnar segja að breytingarnar muni hafa geigvænlegar afleiðingar fyrir lífríki svæðisins.

Meðal þess sem hin nýju lög kveða á um er sakaruppgjöf fyrir landeigendur sem fellt hafa niður tré í skóginum í leyfisleysi á síðustu árum.

Talsmenn náttúruverndarsamtaka hafa bent á að breytingarnar muni hvetja til enn frekara skógarhöggs en aðrir segja að það sé af hinu góða. Nýju lögin gefi bændum sjálfstraustið til að stuðla að enn frekari vexti brasilísks efnahags, eins og það er orðað á vef breska ríkisútvarpsins.

Amazon-skógurinn er stærsti regnskógur í heiminum og er lífríki hans rómað fyrir fjölbreytni og fegurð. Langstærstur hluti skógarins er í Brasilíu þar sem lög frá miðri síðustu öld kveða á um að landareignir verði að vera skógi vaxnar að hluta.

Hlutfallið er á bilinu 20 til 80%, hæst við Amazon-regnskóginn. Með nýju lögunum lækkar þetta hlutfall og má nú höggva niður tré á landssvæði sem nemur 290 þúsund ferkílómetrum, næstum þreföldu flatarmáli Íslands.

Náttúruverndarsinnar eru sem fyrr segir æfir, ekki síst vegna þessa að nýju lögin leyfa ræktun á árbökkum og hæðum, svæðum sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir jarðvegsrofi.

Talsmenn stjórnvalda segjast þó sáttir, fyrri lög hafi verið íþyngjandi og bændur svæðisins búi nú við aukið jafnvægi í varðveislu og nýtingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×