Fótbolti

Útlitið alltaf svartara og svartara hjá Neymar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar.
Neymar. Vísir/Getty

Nú er HM í Rússlandi líka í smá hættu hjá Neymar eftir að viðtal birtist við lækni brasilíska landsliðsins. Það má nú lítið klikka í endurhæfingunni hjá honum ef hann ætlar að ná sér alveg góðum fyrir heimsmeistaramótið í sumar.  

Brasilíski knattspyrnumaðurinn gæti verið frá í þrjá mánuði vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í leik Paris Saint Germain og Marseille á sunnudagskvöldið.

Neymar var borinn af velli og hefur síðan verið skoðaður í bak og fyrir. Fyrst héldu einhverjir að hann gæti náð seinni leiknum á móti Real Madrid í Meistaradeildinni en svo var ákveðið að senda hann í aðgerð.

Neymar flaug til Rio de Janeiro frá París en hann fer í aðgerðina í Brasilíu á laugardaginn.

Rodrigo Lasmar, læknir brasilíska landsliðsins, hefur tjáð sig um meiðsli Neymar. „Fimmta framristarbeinið brotnaði hjá honum og það er mikilvægur hluti af fætinum. Aðgerðin verður í  Belo Horizonte á laugardagsmorguninn og endurhæfingin mun taka tvo og hálfan mánuð til þrjá mánuði,“ sagði Rodrigo Lasmar í viðtali við O Globo.
Neymar hjálpar því ekki Parísarliðinu að vinna Meistaradeildina í vor en ein aðalástæðan fyrir því að hann var keyptur var til að hjálpa PSG að komast loksins alla leið í henni.

„Neymar er leiður yfir þessu en gerir sér grein fyrir því að það er ekkert annað í boði fyrir hann. Hann mun leggja sig allan fram við að koma til baka eins fljótt og mögulegt er. Við munum gera okkar besta við að aðstoða hann í því,“ sagði Rodrigo Lasmar.Neymar missir nær örugglega af restinni af tímabilinu hjá Paris Saint Germain en ætti að ná fyrsta leik á HM í Rússlandi. Fyrsti leikur Brasilíu er á móti Sviss 17. júní eða eftir 108 daga.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.