Erlent

Formleg rannsókn á Le Pen hafin

Kjartan Kjartansson skrifar
Marine Le Pen laut í lægra haldi fyrir Emmanuel Macron í forsetakosningunum í Frakklandi í fyrra.
Marine Le Pen laut í lægra haldi fyrir Emmanuel Macron í forsetakosningunum í Frakklandi í fyrra. Vísir/AFP
Dómari í Frakklandi ákvað að formleg rannsókn skyldi hafin á Marine Le Pen, leiðtoga hægriöfgaflokksins Þjóðfylkingarinnar, vegna myndbanda sem hún birti af aftökum hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams árið 2015.

Reuters-fréttastofan segir að í franska réttarkerfinu sé formleg rannsókn yfirleitt undanfari þess að réttað sé yfir sakborningi. Myndböndin sem Le Pen tísti voru meðal annars af því þegar bandaríski blaðamaðurinn James Foley var hálshöggvinn.

Le Pen er einnig til rannsóknar vegna ásakana um að flokkur hennar hafi misfarið með fé frá Evrópusambandinu til að borga fyrir aðstoðarmenn á þingi og um misferli við fjármögnun í kosningabaráttum.

Ólíklegt er talið að rannsóknin hafi áhrif á vinsældir Le Pen á meðal stuðningsmanna Þjóðfylkingarinnar. Flokkurinn heldur landsþing sitt í næstu viku. Þar er Le Pen sögð ætla að leggja grunninn að endurreisn flokksins eftir afhroðið sem hún beið í forsetakosningunum gegn Emmanuel Macron.


Tengdar fréttir

Þingnefnd sviptir Le Pen þinghelginni

Franska þingið svipti Marine Le Pen, sem laut í lægra haldi fyrir Emmanuel Macron í forsetakosningum fyrr á árinu, þinghelgi í gær. Þverpólitísk þingnefnd tók þá ákvörðun í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×