Umfjöllun og viðtöl: Þór Ak. - Valur 71-77 │ Valsmenn felldu Þór

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Valsmenn verða áfram á meðal þeirra bestu
Valsmenn verða áfram á meðal þeirra bestu Vísir/Eyþór
Þór Akureyri er fallið úr Dominos deildinni. Þetta varð ljóst eftir sex stiga tap liðsins gegn nýliðum Vals í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld. Úrslitin þýða jafnframt að Valsmenn hafa tryggt veru sína í efstu deild.

Þórsarar byrjuðu leikinn betur í kvöld og leiddu í leikhléi. Valsmenn tóku hins vegar leikinn yfir í síðari hálfleik og unnu að lokum nokkuð öruggan sigur, 71-77.

Afhverju vann Valur?

Valsarar voru frekar máttlitlir í flestum sínum aðgerðum framan af. Spurning hvort sú staðreynd að þeir máttu tapa með fjórtán stigum hafi truflað Val en Þórsarar hins vegar voru að berjast fyrir lífi sínu og það sást vel á þeirra leik í fyrri hálfleik. Valsmenn náðu engu að síður að halda í við Þórsarana og voru aðeins fimm stigum undir í hálfleik. Í síðari hálfleik sigu Valsarar svo fram úr þar sem Urald King fór fyrir liðinu.

Bestu menn vallarins?

Urald King var langbesti maður vallarins í kvöld í síðari hálfleik. Þegar hann fór að spila betur sóknarlega var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Þórsarar einfaldlega réðu ekkert við King.

Hvað gekk illa?

Valsarar fóru afskaplega illa með Þórsarana undir körfunni á báðum endum vallarins. Valur tók 62 fráköst á móti 42 hjá heimamönnum en þar af eru 29 sóknarfráköst hjá Val. Í fyrri hálfleik var Valur með 20 sóknarfráköst, jafnmörg og heildarfráköst Þórs í fyrri hálfleik. Ótrúlegt.

Hvað er næst?

Mótið er í rauninni búið hjá báðum liðum. Þórsarar eru fallnir úr deildinni og Valur hefur náð stóra markmiði sínu. Bæði lið eiga engu að síður tvo leiki eftir og spila bæði næstkomandi sunnudag. 

Hjalti: Meiðslavandræðin felldu okkur
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs.Vísir/Ernir
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs, var að vonum niðurlútur í leikslok þegar ljóst var að fall blasti við hans liði. En hvað fannst honum um leik kvöldsins?

,,Við spiluðum svæðisvörn allan leikinn og vorum bara að ströggla. Þeir ná einhverjum 30 sóknarfráköstum sem er allt of mikið. Þeir héldu sér inn í leiknum með því og við vorum ekki alveg nógu beittir,” segir Hjalti.

Þórsarar lentu í miklum skakkaföllum í vetur þar sem aðalmaður liðsins, Marques Oliver, átti í miklum meiðslavandræðum, missti úr nokkra leiki auk þess að spila marga leiki hálfmeiddur. Hjalti kveðs sannfærður um að liðið hefði haldið sér í deildinni ef ekki hefði komið til þessara meiðsla.

,,Það er grátlegt að falla. Ég vil meina að ef við hefðum haldið öllum heilum hefði þetta aldrei gerst. Við missum Marques Oliver og Pálma lengi út. Við sýndum það í fyrstu leikjunum að við erum hörkugóðir en svo fóru menn að meiðast. Þetta var bara of mikið fyrir okkur.”

Mér fannst við gera ágætlega í vetur. Við vorum í hörkuleikjum og menn að leggja sig fram. Við vorum þunnskipaðir til að byrja með og þegar menn byrja að detta út þá bitnar það mikið á liðinu,” segir Hjalti.

Þórsarar hafa spilað mikið á ungum leikmönnum en Hjalti hefur ekki áhyggjur af því að fall skemmi uppbyggingarstarf félagsins.

,,Við erum með 16-17 ára stráka og það er ekkert vont fyrir þá að taka eitt ár í 1.deild og fá að þroskast þar. Það eru hörkulið í 1.deildinni en ekki jafngóð og í Dominos deildinni. Það er ágætt fyrir þessa stráka að fá einn vetur þar og mæta svo bara tilbúnir í Dominos aftur,” segir Hjalti.

Ágúst: Rosalega sæt tilfinning
Ágúst BjörgvinssonVísir/Eyþór
Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, var sigurreifur í leikslok.

,,Þetta var rosalega mikilvægur leikur fyrir bæði lið. Þeir voru með bakið upp við vegg og við vorum með það á bak við eyrað að við mættum tapa. Það er alltaf á bak við eyrað að mega tapa leiknum með ákveðið mörgum stigum þó við höfum ekki ætlað okkur það," segir Ágúst.

Valur hefur ekki náð að festa sig í sessi í efstu deild á undanförnum árum og segir Ágúst það virkilega sæta tilfinningu að ná að tryggja úrvalsdeildarsæti. Hann kveðst jafnframt vongóður um að Valur geti byggt á þessu og farið að berjast um sæti í úrslitakeppni í framtíðinni.

,,Þetta er rosalega sæt tilfinning. Það er allt of langt síðan það gerðist síðast að Valur náði að spila tvö ár í röð í efstu deild.”

,,Við erum búnir að halda sama kjarna í þónokkur ár. Kjarninn er mjög sterkur og andinn í liðinu góður. Ef við höldum áfram að æfa vel er ég mjög vongóður um að við getum farið að klifra ofar í töflunni í náinni framtíð,” segir Ágúst Björgvinsson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira