Umfjöllun: Valur - Grindavík 78-100 | Grindavík á góðri siglingu

Gunnhildur Lind Hansdóttir skrifar
Ólafur Ólafsosn, leikmaður Grindavíkur.
Ólafur Ólafsosn, leikmaður Grindavíkur. Vísir/Eyþór
Grindvíkingar nældu sér í tvö stig í 21. umferð Domino's deildar karla er þeir sóttu Valsmenn heim að Hlíðarenda í kvöld.

Gestirnir urðu að teljast sigurstranglegri fyrir leikinn og kom lítið á óvart í kvöld. Þeir tóku strax yfirhöndina, stjórnuðu leikhraða og héldu forskotinu sem þeir náðu í 1. leikhluta út allan leikinn.

Valsmenn voru heldur orkulitlir mest allan tímann fyrir utan smá neista snemma í seinni hálfleik sem brann út ansi fljótt. Þrátt fyrir ágætis tilraun til að ná fram pressu og svæðisvörn frá þeim hvítklæddu þá létu Grindvíkingar ekkert slá sig útaf laginu og fléttuðu sig hægt og rólega í gegnum vörnina sem þeir þurftu ekki að hafa mikið fyrir á köflum.

Lokaleikhlutinn var algert formsatriði og tíðindalítill. Sigur Grindvíkinga var aldrei í hættu og Valsmenn síður líklegir til að snúa leiknum sér í hag. Verðskuldaður sigur hjá Reykjanesliðinu.

Af hverju vann Grindavík?

Grindvíkingar voru alltaf sigurstranglegri í kvöld og því kom ekkert á óvart að sigurinn fór þeirra megin. Þeir spiluðu boltanum vel á milli sín, voru duglegir að sækja varnar- og sóknar fráköst og ágætis framlag kom frá bekknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Dagur Kár var virkilega góður að stjórna sóknarleik gestanna, hann virðist alltaf vita hvar liðsfélagar sínir eru á vellinum og er óeigingjarn að deila boltanum enda með 8 stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Það hefur eflaust gengið illa hjá Valsmönnum að gíra sig upp fyrir leikinn þar sem þeir eru öruggir í Dominos deildinni á næsta tímabili en vonin að komast í úrslitakeppnina er engin. Þess vegna mætti segja að hver leikur er sem algjört formsatriði. Það hugarfar einkenndi leik heimamanna og það var lítið að gerast en þó vissulega björt augnablik inn á milli.

Hvað gerist næst?

Næst munu Grindvíkingar fá Þór Akureyri í heimsókn á Reykjanesið en þeir sitja í næst neðsta sæti deildarinnar og fall niður í 1. deild staðfest. Valsmenn halda hins vegar í Hafnarfjörðinn og mæta toppliði Hauka næst komandi fimmtudag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira