Innlent

Þurftu að synda tugi metra í land

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá björgunaraðgerðinni  fyrr í dag.
Frá björgunaraðgerðinni fyrr í dag. Lögreglan Norðurlandi eystra
Mennirnir fjórir, sem lentu í sjónum eftir að bátur þeirra hvolfdi skammt austan við Dalvík í dag, þurftu að synda tugi metra í land. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Þar segir að mennirnir fjórir náðu að komast upp í klettafjöru við Hálshorn og gerðu Neyðarlínu viðvart.

Mennirnir voru í sjálfheldu er þeir komu upp í fjöruna. Fjölmennt lið viðbragðsaðila var kallað á staðinn. Björgunarsveitarmenn á bát náðu að komast fljótlega að mönnunum og hlúa að þeim. Mennirnir voru orðnir mjög kaldir og þrekaðir en þeir höfðu þurft að synda einhverja tugi metra í land.

Mennirnir voru síðan hífðir upp klettana og fluttir með sjúkrabifreiðum á sjúkrahús. Allir voru með meðvitund og gátu gengið sjálfir en orðnir frekar kaldir og þreyttir. Báturinn sem er opinn trefjaplastbátur með utanborðsmótor rak að landi skammt frá skömmu eftir að mennirnir komu í land. Björgunarsveitarmenn náðu að koma bátnum á flot aftur og koma honum inn í höfnina á Dalvík.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×