Innlent

Fjórir slösuðust og fjórir sluppu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tvö umferðaróhöpp urðu í grennd við Akureyri í gærkvöldi.
Tvö umferðaróhöpp urðu í grennd við Akureyri í gærkvöldi. Vísir/Auðunn
Fjórar manneskjur lentu í lífsháska þegar bíll þeirra fór út af veginum efst í Víkurskarði í gærkvöldi og fór aðeins niður hlíðina, en þar fyrir neðan er snarbratti ofan í djúpt gil. Að sögn sjónarvotta var bíllinn nánast á hliðinni þegar hann nam staðar.

Lögregla, á leið í annað útkall, kom brátt á staðinn og með sameiginlegu átaki lögreglumanna og vegfarenda tókst að koma böndum á bílinn þannig að fólkinu væri óhætt að koma út úr honum. Því var að vonum illa brugðið, en þurfti ekki að leita aðhlynningar.

Þá voru aðrir fjórir einstaklingar fluttir slasaðir á sjúkrahúsið á Akureyri í gærkvöldi eftir harðan árekstur tveggja bíla við Rauðuskriðu, á veginum á milli Akureyrar og Húsavíkur. Fréttastofu er ekki kunnugt um hversu alvarlega fólkið er slasað en annar ökumannanna er grunaður um ölvunarakstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×