Innlent

Efaðist aldrei um að hún hefði stuðning þingsins

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra. vísir/hanna
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segist aldrei hafa efast um að hún hefði stuðning þingsins. Hún segist nú geta einbeitt sér að öðrum verkefnum, eftir að vantrauststillaga Pírata og Samfylkingarinnar gegn henni var felld nú í kvöld.

En hver eru fyrstu viðbrögð?

„Þau eru bara að ég hef stuðning þingsins til minna starfa. Get núna farið að einbeita mér að verkefnunum framundan eins og fjármálaráðherra kom inn á í ágætri ræðu sinni. Þarna kom bara í ljós tilgangur þessarar vantrauststillögu. Menn nærast á þessu vantrauststali, vilja í rauninni raska hér vinnufriði, stjórnarandstaðan. Það er þeirra markmið í þessu. Þeim varð ekki kápan úr því klæðinu núna,“ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í samtali við Vísi.

Efaðist þú á einhverjum tímapunkti um að þú hefðir stuðning þingsins?

„Nei.“

Allir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna greiddu atkvæði gegn tillögunni nema tveir. Það voru þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, þingmenn Vinstri grænna.

„Það kemur mér svo sem ekkert á óvart miðað við hvernig þau eru að tala en það verður hver að fá að fljúga eins og hann er fiðraður til. Það er ekki mitt að ræða framkomu þingmanna annarra stjórnarflokka. Þetta ætti svo sem ekki að koma neinum á óvart.“

Sigríður segist nú horfa til framtíðar og vonast til að Landsréttarmálið sé nú að baki.

„Ég skyldi nú ætla það og að því leyti var auðvitað mjög gott að þessi vantrauststillaga kom loksins fram. Það hefur lengi verið talað um hana og menn létu sig hafa það núna en auðvitað athyglisvert að öll stjórnarandstaðan var ekki með á henni. Menn máttu greina það að menn greiddu atkvæði með þessari þingsályktunartillögu með ýmsum örkum og út frá ýmsum sjónarhornum. Það var kannski ekki fullkominn einhugur hjá stjórnarandstöðunni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×