Innlent

Atli ráðinn sem ráðgjafi hjá Pírötum

Sveinn Arnarsson skrifar
Atli Þór Fanndal verður pólitískur ráðgjafi Pírata
Atli Þór Fanndal verður pólitískur ráðgjafi Pírata

Píratar ætla sér stóra hluti í komandi sveitarstjórnarkosningum og munu bjóða fram í nokkrum sveitarfélögum landsins. Hafa þeir í þeim leiðangri ráðið Atla Þór Fanndal blaðamann sem póli­tískan ráðgjafa flokksins í komandi kosningum.

Erla Hlynsdóttir, framkvæmdastjóri flokksins, segir Pírata stefna á framboð í Reykjavík, Kópavogi, Akureyri, Hafnarfirði, Reykjanesbæ og Árborg. Einnig skoðar flokkurinn alvarlega að tefla fram lista í Mosfellsbæ.

„Svo erum við að skoða möguleika á að bjóða fram ein eða með öðrum annars staðar,“ segir Erla.

Atli mun koma inn í starfið og vera til halds og trausts bæði fyrir framboðin og einstaka frambjóðendur.

„Hans hlutverk er að vera pólitískur ráðgjafi flokksins. Við höfum verið með ráðgjafa í síðustu tveimur kosningabaráttum. Hann er til ráðgjafar fyrir þá sem hafa áhuga á því, bæði aðildarfélögin og frambjóðendur,“ bætir Erla við.

„Það var okkar mat að hann hefði mikla þekkingu á pólitísku landslagi á Íslandi og að það væri styrkur í að fá hann inn í okkar teymi fyrir þessar sveitarstjórnarkosningar.“

Píratar mældust stærsti stjórnmálaflokkur landsins í fyrsta skipti í maí árið 2015.

Gallup mældi flokkinn í 36 prósentum þann 1. apríl ári seinna. Í síðustu mælingu var flokkurinn með tæpra tólf prósenta fylgi og fjórði stærsti flokkurinn á þingi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.