Innlent

Lægðin orðin „mjög myndarleg“ eftir hádegi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það verður líklega töluverð úrkoma í dag.
Það verður líklega töluverð úrkoma í dag. VÍSIR/VILHELM

Gular viðvaranir taka gildi um allt land síðdegis í dag þegar suðaustanstormur gengur yfir landið. Það gengur í 18 til 25 m/s seinnipartinn með slyddu og síðar rigningu en búist er við talsverðri úrkoma sunnan- og vestanlands.

Fólk er beðið að huga að lausamunum og ferðamenn ættu sýna aðgát enda kann skyggni víða að vera lítið og snarpar vindhviður við fjöll.

Að sögn veðurfræðings er útlit fyrir að lægðin, sem nú er djúpt suðvestur í hafi á hraðferð til norðurs, verði orðin „mjög myndarleg“ seinni partinn í dag. Verður þá komin suðaustanstormur af hennar völdum á öllu landinu.

Úrkoman sem fylgir lægðinni verður þó að mestu í formi rigningar enda hlýnar á landinu í dag og verður hitinn líklega á bilinu 5 til 10 í kvöld.

Stormurinn í dag er sá síðasti í kortunum í bili, útlit er fyrir að hæðir ráði ríkjum við landið í næstu viku og að þá verði veður tiltölulega rólegt og lítið um úrkomu.

Það er svo gert ráð fyrir sunnanátt, strekkingi eða allhvössum vindi með skúrum og síðar éljum á morgun og kólnar smám saman. Þurrt verður þó að kalla á Norðurlandi. „Rétt er taka það fram að austanlands verður enn hvöss sunnanátt með talsverðri rigningu og hlýindum fram að hádegi á morgun, þar er um að ræða leifarnar af veðri dagsins í dag,“ segir veðurfræðingur. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:
Suðaustan 18-23 m/s austanlands fram að hádegi, talsverð rigning og fremur hlýtt. Annars sunnan 10-18 með skúrum og síðar éljum, en úrkomulítið norðan heiða. Hiti 1 til 5 stig. 

Á sunnudag:
Austan og suðaustan 8-15 og slydda og síðar rigning með köflum. Heldur hægari og þurrt að kalla á Norður- og Austurlandi. Hiti 0 til 6 stig, mildast með suðurströndinni. 

Á mánudag:
Suðaustan 10-15 og dálítil væta sunnan- og vestanlands, en hægari og bjart á Norður- og Austurlandi. Hiti 3 til 8 stig. 

Á þriðjudag:
Hæg suðvestlæg eða breytileg átt. Skýjað og smásúld á vesturhelmingi landsins, en bjart austantil. Hiti 2 til 7 stig. 

Á miðvikudag:
Fremur hæg norðvestlæg eða breytileg átt. Skýjað að mestu á landinu og svolítil rigning eða slydda við norðurströndina. Hiti 0 til 6 stig. 

Á fimmtudag:
Norðaustan 5-13 og léttskýjað um landið sunnan og vestanvert, en dálítil él norðaustantil. Kólnar í veðri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.