Enn lengist biðin hjá Burnley

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jóhann Berg í leik með Burnley.
Jóhann Berg í leik með Burnley. vísir/getty
Manolo Gabbadini tryggði Southampton jafntefli gegn Burnley á Turf Moor í dag með marki á loka mínútunum þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni.

Bæði lið höfðu ekki unnið í fjölmargar umferðir fyrir leik dagsins, Burnley ekki síðan um miðjan desember og Southampton hafði ekki unnið í síðustu 14 deildarleikjum sínum.

Frekar dauft var yfir leiknum í fyrri hálfleik en það dró til tíðinda á 67. mínútu þegar Ashley Barnes kom Burnley yfir eftir sendingu frá Jeff Hendrick. Það leit allt út fyrir að Burnley væri loks að komast aftur á skrið þar til Gabbiadini náði að koma boltanum framhjá Nick Pope í marki heimamanna á 90. mínútu.

Jafntefli niðurstaðan en það dugði Southampton til að klifra úr fallsæti og upp í 16. sætið.

Mikið var um að vera í neðri helming deildarinnar í dag. Leikmenn Eddie Howe komu til baka eftir að hafa verið 2-0 undir á heimavelli sínum gegn Newcastle og náðu í jafntefli með tveimur mörkum á síðustu tíu mínútum leiksins.

Brighton valtaði yfir Swansea á heimavelli með fjórum mörkum gegn einu. Leikmenn Brighton skoruðu þó öll mörk leiksins því mark Swansea var sjálfsmark Lewis Dunk. Það kom á 85. mínútu þegar staðan var 3-0 og gaf því gestunum litla von.

Huddersfield sigraði botnlið West Bromwich Albion á útivelli með tveimur mörkum gegn einu. Gestirnir komust yfir snemma í seinni hálfleik með marki frá Steve Mounie og tvöfaldaði Rajv van la Parra forystuna áður en Craig Dawson klóraði í bakkann.

Úrslit dagsins þýða að Swansea er komið aftur í fallsæti á markatölu. Staða West Brom á botninum verður erfiðari og erfiðari, nú eru sex stig í Stoke í 19. sætinu. Frá Stoke og upp í 10. sætið þar sem Bournemouth situr munar þó aðeins sex stigum svo allt er enn galopið í neðri hluta deildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira