Enski boltinn

Messan: Varnarmenn andstæðinga Liverpool eru alltaf skíthræddir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool vann 4-1 sigur á West Ham í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi og er komið upp í þriðja sæti deildarinnar. Strákarnir í Messunni segja að ekkert lið sé að spila betur í enska boltanum í dag fyrir utan topplið Manchester City.

„Fyrir utan Manchester City er ekki Liverpool bara með besta liðið um þessar myndir,“ spurði Ríkharð Guðnason þegar hann hóf umræðuna um Liverpool-liðið í Messunni.

„Jú, formið þeirra sýnir það. Þeir eru á fleygiferð og voru líka á fleygiferð í Meistaradeildinni þar sem þeir náðu stórkostlegum úrslitum. Það er gaman að horfa á Liverpool-liðið og þeir eru líka að fá á sig færri mörk núna. Það eru allar sendingar fram á við. Boltanum er alltaf spilað með einhverjum tilgangi og þeim tilgangi að komast í einhverja sóknarstöðu,“ sagði Reynir Leósson.

„Það er þvílíkur fyrir menn sem vinna boltann að sjá hversu mikið af hlaupum er alltaf í boði. Varnarmenn andstæðinga Liverpool eru alltaf skíthræddir við hraðann hjá leikmönnum Liverpool. Grunnurinn að þessum sigri var líka að þeir eru farnir að verjast mikið betur en þeir gerðu og Van Dijk á stóran þátt í því,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson.

„Það virðist vera þannig með Jürgen Klopp að hann gerir alla leikmenn betri sem hann hefur keypt í Liverpool. Er það rétt?,“ spurði Ríkharð Guðnason.

„Það er ekkert langt frá því og það finnst mér sammerkt með þessum bestu stjórum. Mér finnst allir leikmenn vera betri hjá City en þeir voru fyrir Guardiola. Mér finnst líka flestir leikmenn Liverpool vera búnir að taka skref fram á við eftir að Klopp tók við,“ sagði Reynir.

Jóhannes Karl Guðjónsson hafði líka skoðun á því af hverju sóknarleikur Liverpool hefur batnað eftir að liðið seldi Philippo Coutinho til Barcelona.

Það má finna umfjöllunina um Liverpool í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×