Enski boltinn

Messan: Sjáum við Jóhann Berg í stærra úrvalsdeildarliði á næsta tímabili?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson hefur átt mjög gott tímabil með Burnley og það er gaman að sjá íslenska landsliðsmanninn í HM-formi. Strákarnir í Messunni veltu fyrir sér framtíð Jóhanns og því hvort að hann sé mögulega á leiðinni í stærra lið í ensku úrvalsdeildinni.

„Erum við að sjá Jóhann Berg mögulega í stærra úrvalsdeildarliði á næsta tímabili eins og við sáum hjá Gylfa Þór Sigurðssyni þegar hann fór til Everton?, spurði Ríkharð Guðnason þegar hann hóf umræðuna í Messunni um framtíð Jóhanns Berg Guðmundssonar.

„Það gæti alveg verið en ég held að hann passi svo rosalega vel inn í þessa hugmyndafræði hjá Sean Dyche. Hann hefur vaxið eftir því sem hefur liðið á tímabilið. Það sem Jói Berg hefur gert eftir að hann fór að spila í Englandi er að hann hefur bætt sig svakalega í þáttum sem menn er oft ekki mikið að vinna í,“ sagði  Jóhannes Karl Guðjónsson.

„Það er vinnusemi, það er form, það er styrkur, það er hraði og það er svo mikið sem hann hefur bætt sig í. Það er frábært að sjá að hann sé einn af fyrstu nöfnunum á blað þegar verið er að velja byrjunarliðið. Hann er búinn að stimpla sig virkilega vel inn í þetta lið,“ sagði  Jóhannes Karl.

„Ég hélt að eitt sé klárt hvort sem Jói fari eða ekki er að það þyrfti að vera dálítið öflugt lið ef hann ætti að hreyfa sig. Ég held að hann fái klárlega nýjan samning. Hann er búinn að tryggja sér nýjan og betri samning,“ sagði Reynir Leósson.

„Ég held að við megum ekki vanmeta þátt Lars og Heimis í því hvaða framstigum hann tók sem leikmaður hvað varðar taktík og varnarvinnu. Mér finnst þetta  Burnley-lið eins og það var að spila í þessum leik vera eins og spegilmynd eins og íslenska landsliðið spilaði oft á tíðum sína leiki,“ sagði Reynir.

Það má sjá þessa umfjöllun Messunnar um Jóhann Berg í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×