Enski boltinn

Arsenal goðsögn: Er skítsama því annars hefði Wenger ekki fengið tveggja ára samning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger.
Arsene Wenger. Vísir/Getty
Ian Wright, einn af markahæstu leikmönnum í sögu Arsenal, vill losna við Arsene Wenger úr stjórastól félagsins en franski knattspyrnustjórinn og leikmenn hans hafa fengið harða gagnrýni eftir tapið í úrslitaleik enska deildabikarsins um helgina.

Arsenal tapaði 3-0 á móti Manchester City á Wembley um síðustu helgi og hefur tapað sex af fyrstu tólf leikjum sínum á árinu 2018.

„Það eru eintómar afsakanir frá Wenger og hann er bara að ofdekra leikmennina sína,“ sagði Ian Wright í viðtali við BBC Radio 5.

„Hvort sem hann heldur áfram með liðið eða ekki þá er ekkert sem rökstyður það að hann verði áfram. Ég held að enginn geti fundið þau rök. Það þarf að fara binda enda á þessa meðalmennsku,“ sagði Wright.

„Ég vil að Arsenal fari að berjast um titilinn á ný og ég vil sjá félagið fá til sín spennandi leikmenn,“ sagði Wright sem heldur því fram að nokkrir leikmenn liðsins hafi það bara hreinlega of gott.

„Það mun taka Arsenal nokkur ár að koma til baka. Það eru öll lið að styrkja sig og bæta af þessum topp fimm en Arsenal er að fara í hina áttina. Þeir verða að stoppa þá þróun, ná sér í öflugan stjóra til að fara með liðið inn í framtíðina,“ sagði Wright.





Ian Wright skoraði á sínum tíma 185 mörk í 288 leikjum með Arsenal en hann lagði skóna á hilluna árið 2000.

Ian Wright spilaði tvö síðustu árin sín hjá Arsenal undir stjórn Arsene Wenger og skoraði 10 mörk í 24 leikjum þegar Wenger gerði Arsenal að Englandsmeisturum í fyrsta sinn.

„Ég vil skella stórum hluta af skuldinni á eigandann. Kroenke er skítsama. Ef honum væri ekki skítsama þá hefði Wenger ekki fengið nýjan tveggja ára samning,“ sagði Wright.





„Allir eru farnir að sjá að Wenger þarf að fara. Eigandinn þarf að vera á staðnum og sjá hvað er að gerast. Stuðningsmennirnir gafa verið að segja þetta í mörg ár en það hlustar enginn. Eigandinn hefur ekki gert neitt í málinu og fyrir vikið hefur Wenger bara haldið áfram,“ sagði Wright.

Ian Wright vill ekki einhvern gamlan karl í starfið. Hann vill ekki Carlo Ancelotti eða slíka týpu heldur ungan upprennandi stjóra eins og Mauricio Pochettino.

Það má finna meira af viðtalinu við Ian Wright með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×