Erlent

Í haldi vegna höfuðs í skjalatösku

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan við rannsókn á íbúðinni þar sem höfuðið fannst.
Lögreglan við rannsókn á íbúðinni þar sem höfuðið fannst. Vísir/Getty
Japanska lögreglan yfirheyrir nú bandarískan ferðamann vegna höfuðs ungrar konu sem fannst í íbúð sem maðurinn hafði leigt í borginni Osaka. Lögreglan telur að höfuðið, sem geymt var í skjalatösku, tilheyri konu sem síðast sást á lífi í fylgd mannsins.

Konan var 27 ára gömul og hafði sagt vinum sínum að hún hygðist ætla að hitta Bandaríkjamann sem hún hafði kynnst í gegnum smáforrit.

Maðurinn neitar hins vegar alfarið að tengjast höfðinu í skjalatöskunni með nokkrum hætti.

Japanskir miðlar segja manninn heita Yevgeniy Vasilievich Bayraktar og vera 26 ára gamlan. Hann á að hafa komið til Japans frá New York með það fyrir augum að kynna sér land og þjóð. Að sögn móður hans hafði hann ætíð dreymt um að giftast japanskri konu.

Þau Bayraktar og japanska konan eru sögð hafa hist nokkrum sinnum undanfarnar vikur en ekki er vitað nákvæmlega hvernig sambandi þeirra var háttað. Þó er ljóst að maðurinn hafði áður brotið gegn konunni, til að mynda þegar hann var handtekinn í liðinni viku fyrir að halda henni nauðugri í íbúð sinni.

Lögreglan segir að síðan tilkynnt var um hvarf konunnar hafi sést til Bayraktar ganga út úr íbúðinni með stóran poka. Skömmu síðar fundu leitarmenn líkamshluta í fjalllendi nálægt Osaka. Ekki er hins vegar vitað á þessari stundu hvort þeir hafi tilheyrt hinni umræddu japönsku konu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×