Fótbolti

Freyr talar niður íslensku stelpurnar: Fyrirfram erum við með langslakasta liðið

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Freyr Alexandersson og íslensku stelpurnar.
Freyr Alexandersson og íslensku stelpurnar. Vísir/Getty
Íslenska kvennalandsliðið hefur leik á Algarve-mótinu í dag þegar það mætir Danmörku. Er þetta tólfta árið í röð sem landsliðið tekur þátt í þessu sterka æfingamóti en besti árangurinn er 2. sætið árið 2011.

Erfiður riðill

Ísland er í erfiðum riðli með ríkjandi Evrópumeisturum Hollands, silfurliði Danmerkur frá sama móti og heimsmeisturum ársins 2011, Japan, en þessi lið eru í 7., 9. og 12. sæti heimslistans. Fyrir vikið var Freyr Alexandersson hóflega bjartsýnn á að ná í úrslit á mótinu.

„Fyrirfram erum við með langslakasta liðið en það gæti hentað okkur vel. Nokkrir leikmenn hjá okkur eru að mæta bestu leikmönnum sem þær hafa mætt sem er hollt og vonandi læra þær af því. Við erum ekkert að horfa endilega á einhver úrslit á þessu móti, við horfum fyrst og fremst á að bæta liðið og einstaklinga innan liðsins.“

Sagan Íslandi ekki hliðholl

Verður þetta í tólfta skiptið sem kvennalandslið Íslands og Danmerkur mætast. Hefur Ísland unnið tvo leiki, báða á Algarve Cup og þann síðari fyrir tveimur árum en Danir hafa unnið átta leiki og er markatalan 20-9 Dönum í hag.

„Ég býst við erfiðum leik, þær skiptu um þjálfara en undirstaðan í liðinu er sú sama. Við munum berjast gegn þeim en þær eru með tvo af bestu sóknarmönnum heims þannig að það verður gaman að sjá hvernig okkur tekst að loka á þær,“ sagði Freyr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×