Erlent

Sprengjufundur stöðvar flug frá London City

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Svæði í 214 metra radíus frá sprengjunni var girt af.
Svæði í 214 metra radíus frá sprengjunni var girt af. BBC
London City flugvellinum í Lundúnum hefur verið lokað eftir að sprengja úr seinna stríði fannst í ánni Thames, skammt frá vellinum.

Flugvöllurinn verður ekki opnaður aftur í dag og mun það hafa áhrif á ferðir um 16 þúsund farþega að sögn talsmanns flugvallarins.

Iðnaðarmenn fundu sprengjuna um klukkan 5 í gærmorgun og var tekin ákvörðun um að loka vellinum klukkan 22:00 í gærkvöldi. Starfsmenn flugvallarins vinna nú í nánu samstarfi við sprengjudeild breska flotans en stefnt er að því að flytja sprengjuna burt af svæðinu.

Hvort aftengja þurfi sprengjuna fyrst liggur ekki fyrir að svo stöddu. Breska lögreglan tók þó enga áhættu og girti af svæði í 214 metra radíus umhverfis sprengjuna. Öll hús innan þess svæðis voru rýmd og búið er að koma upp fjöldahjálparstöð fyrir íbúa.

Farþegum sem áttu bókað flug í dag hefur verið ráðlagt að halda sig heima. Fjölmörg stór flugfélög fljúga til og frá vellinum; þar á meðal Flybe, CityJet, KLM, Lufthansa og British Airways, sem flýgur frá London City til Keflavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×