Innlent

Íslensk hjón í Noregi skiptast á að sofa í snjóhúsi í garðinum

Þórdís Valsdóttir skrifar
Anna Lind og Arnar Þór hafa búið í Noregi í fimm ár og hafa svo sannarlega aðlagast norska vetrinum.
Anna Lind og Arnar Þór hafa búið í Noregi í fimm ár og hafa svo sannarlega aðlagast norska vetrinum. Vísir/Anna lind
Hjónin Anna Lind Björnsdóttir og Arnar Þór Stefánsson eru búsett í Drammen í Noregi og hreinlega elska útiveru. Þau njóta þess svo mikið að þau ákváðu að byggja snjóhús í garðinum og skiptast á að sofa þar. Húsið er með tveimur „svefnálmum“ að sögn Önnu Lindar.

Anna Lind segir að snjórinn í hverfinu þeirra Konnerud sé meiri en við þekkjum á Íslandi, hverfið í Drammen er í yfir 300 metra hæð yfir sjávarmáli. „Það eru tveggja metra háir ruðningar út um allt,“ segir Anna Lind.

Mikill snjór var í garðinum hjá þeim og Anna Lind segir að snjóhúsaævintýrið hafi byrjað á því að hún hóf að grafa holu í einn skaflinn. „Arnar er svo mikið nörd að hann tók við og var úti á kvöldin eftir að börnin voru sofnuð og var að byggja snjóhúsið. Börnin voru löngu búin að missa einbeitinguna og áhugann á því að byggja snjóhúsið á þessum tímapunkti,“ segir Anna Lind sem starfar á ferðaskrifstofunni Tumlare í Osló.

Anna Lind og Arnar hafa búið síðastliðin fimm ár í Noregi og þau eiga þrjú börn sem eru sjö ára, þriggja ára og níu mánaða.

Gaman að vekja foreldra sína í snjóhúsinu á morgnana

Anna Lind og Arnar skiptast á við sofa í snjóhúsinu og Anna Lind segir að þau ætli að gera það á meðan það stendur. „Okkur langaði auðvitað að geta gist þar inni saman, en það verður víst einhver að passa börnin,“ segir Anna glettin.

Anna Lind segir að hún sofi mjög vel í húsinu. „Ég svaf bara vel, það tók smá tíma að sofna en eftir það svaf ég bara mjög vel. Ég var mjög spennt að prófa nýju dýnuna mína og allan búnaðinn sem við höfum keypt,“ segir Anna Lind en hún svaf á gönguvindsæng og ofan í svefnpoka. Þá var hún í tveimur lögum af ull og með fótahitara.

Í húsinu eru tvær „svefnálmur“. „Það er pláss fyrir tvo til þess að vera á dýnu en í raun er húsið nógu stórt til að rúma alla fjölskylduna,“ segir Anna Lind en bætir við að börnin sofa ekki í húsinu. Skaflinn sem húsið er grafið í er tveir metrar á hæð og Arnar getur setið í húsinu þó hann sé tæplega tveir metrar á hæð.

Tveimur eldri börnum þeirra hjóna langar mikið að prófa að sofa í húsinu en Anna Lind segir að þau eigi ekki nógu góða svefnpoka til þess að geta sofið þar líka og foreldrarnir vilja ekki að þau fái neikvæða upplifun af snjóhúsinu ef þeim yrði kalt. „Þeim finnst samt mjög mikið sport að fara út á morgnana og vekja foreldra sína í snjóhúsinu í garðinum,“ segir Anna Lind en bætir við að það sé ekki útilokað að þau kaupi betri poka fyrir þau svo þau geti prófað að gista þar með foreldrum sínum.

Hér má sjá svefnherbergin tvö. Arnar sefur værum blundi.Vísir/Anna Lind

Alinn upp í „snjókistunni“ á Siglufirði

Arnar, sem starfar sem verkfræðingur fyrir Eflu í Noregi, hefur alltaf þótt gaman að byggja snjóhús og er nú að vinna í nýju, og enn stærra húsi í garðinum hjá fjölskyldunni. Arnar er fæddur og uppalinn á Siglufirði sem er þekktur fyrir að vera mikil snjókista. Anna Lind er einnig Siglfirðingur en var að mestu leyti uppalin í Reykjavík þó hún hafi eytt miklum tíma fyrir norðan.

„Móðurbróðir Arnars, sem bjó líka á Siglufirði, gerði alltaf mjög stórt snjóhúsi í garðinum hjá sér á veturna sem Arnar og frændi hans léku sér síðan í meira og minna allan veturinn. Það er mjög mikil upplifun fyrir krakka að fara inn í svona snjóhús sem hægt er að standa uppréttur í. Núna er hann orðinn nógu fullorðinn til að geta búið til svona snjóhús fyrir sín eigin börn,“ segir Anna Lind en börnin þeirra njóta þess að vera í snjóhúsinu þeirra á daginn, borða laugardags-nammið og bjóða vinum sínum í heimsókn. „Hvað gerir maður ekki fyrir blessuð börnin?“ segir Anna Lind og hlær.

Anna segir að verkfræðingurinn í Arnari og góðar minningar úr snjóhúsunum á Siglufirði hafi kveikt þennan áhuga hjá honum. Nú er hann að vinna í öðru snjóhúsi í garðinum hjá þeim sem verður enn stærra og flottara að sögn Önnu. „Arnar var bara með hlustunartækið úti í kvöld því hann var einn með börnin og þau voru sofandi. Hann var að byggja á meðan,“ segir Anna Lind en hún var á gönguskíðum í kvöld.

Öll fjölskyldan stundar gönguskíði og nýtur þess að vera úti í snjónum í Noregi. Tvö eldri börn Önnu og Arnars skíða sjálf, en yngsta dóttir þeirra er í púlkunni.Vísir/anna lind

Með barnið og köku í eftirdragi

Þessi athafnasömu hjón láta sér ekki duga að vinna, eiga þrjú börn og byggja snjóhús í frítíma sínum heldur eru þau einnig mjög virk í annars konar útivist og hafa í raun farið alla leið í norska lífsstílnum.

„Við erum núna mikið á gönguskíðum og við erum svo í fjallgöngum á sumrin. Svo höfum við verið mikið á svigskíðum en við getum ekki farið með Söru yngstu dóttur okkar á svigskíði,“ segir Anna Lind, en það er gönguskíðabraut sem byrjar í götunni þeirra og tvö eldri börnin eru mikið á gönguskíðum með foreldrum sínum.

Anna Lind fjárfesti á dögunum í svokallaðri púlku, sem er í raun sleði eða vagn til að draga farangur á eftir sér. Púlkan er fest um mittið og svo er hægt að skíða með hana í eftirdragi. Púlkan gegnir því einnig því hlutverki að vera barnavagn svo níu mánaða dóttir þeirra geti farið með í gönguskíðaferðir.

Um miðjan síðasta mánuð var allt á kafi í snjó í Drammen að sögn Önnu Lindar, en hún dó ekki ráðalaus þegar hún átti stefnumót við vinkonur sínar og börnin þeirra. „Það var ekki hægt að keyra bílinn né vagninn, þeir höfðu ekki undan við að moka snjóinn svo ég fór bara á gönguskíðunum með púlkuna. Það var ekki bara pláss fyrir Söru litlu heldur kökuna líka!“

Anna Lind segir þó að undir venjulegum kringumstæðum noti hún bílinn til að versla í matinn og koma sér á milli staða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×