Skoðun

Gæludýr í Strætó

Undrun vekja fréttir um að stjórn Strætó bs. hafi leyft flutning gæludýra með strætisvögnum. Ég tel að þar sé meiri hagsmunum fórnað fyrir minni. Þeir farþegar, sem dýraofnæmi hafa eða óttast dýr, t.d. hunda, - oft af fenginni reynslu, skulu nú víkja fyrir því áhugamáli sumra dýraeigenda að ferðast í strætisvögnum með skepnur sínar.

Ég tel ákvörðunina byggða á vanþekkingu og misskilningi, sem m.a. stafi af blekkingum sumra, sem knúðu á um breytinguna.

Þeim rökum hefur verið hampað, að í sumum öðrum löndum sé þetta leyft. Það er rétt. Hins vegar láðist stjórninni að hafa í huga, að hjá grannþjóðum okkar er t.d. hundahald þróaðra en hér og fólk mun löghlýðnara en við Íslendingar. Það virðist í þjóðareðli okkar að fara ekki eftir settum reglum, boðum og bönnum. Það sést glögglega á mörgum sviðum þjóðlífsins.

Á Reykjavíkursvæðinu eru taldir vera um 5.000 ólöglegir hundar, þ.e. óskráðir, óbólusettir og án ábyrgðartryggingar. Skráðir hundar munu álíka margir. Við sjáum daglega, að fjölmargir hundaeigendur hirða ekki upp skít frá dýrum sínum, þótt ábyrgir hundaeigendur standi sig vel að þessu leyti. Einnig sjáum við oft taumlausa hunda og að hundaeigendur virði ekki bannsvæði. Það segir líka sína sögu um ólöghlýðnina, að við sjáum í umferðinni oft á dag skýr dæmi um lögbrot ökumanna andstætt því sem við upplifum í umferðinni erlendis.

Ég spyr hvort óskráðir og leyfislausir hundar verði fluttir með strætó? Er vagnstjórum ætlað það hlutverk ofan á erilsamt starf að hafa hemil á því?

Ég nefndi blekkingar gagnvart stjórn Strætó bs. Ég sat af hálfu Astma- og ofnæmisfélags Íslands, AO, fund hjá Strætó bs. um málefnið. Til fundarins var boðið fulltrúum áhugafélaga um dýrahald, sem allir börðust fyrir því að komast í strætó með dýrin sín. Ég reyndi að gæta hagsmuna almennra farþega og þá sérstaklega veiks fólks. Reyndar stóðu fulltrúar vagnstjóranna einnig gegn þessari nýbreytni. Fulltrúi úr þvottastöðinni, (hundaeigandi), stóð hins vegar með þeim, sem á sóttu. Aðspurður um þrif á sætum vagnanna, kvaðst maðurinn aldrei þrífa sætin.

Dró atkvæði til baka

Faglegur fundarstjóri var starfsmaður Strætó bs. Þegar til atkvæðagreiðslu kom gerðist fundarstjórinn hlutdrægur og greiddi tillögunni atkvæði. Fundarstjórinn dró atkvæði sitt síðar til baka að fenginni athugasemd. Naumur meirihluti var þá fyrir nýbreytninni.

Mér var ljóst að sumir greiddu tillögunni atkvæði sitt undir fölsku flaggi. Vil ég þar sérstaklega nefna formann Dýraverndarsambands Íslands, DÍS, sem í nafni félags síns og greiddi atkvæði með leyfi fyrir dýraflutningunum. Málefnið átti samt ekkert skylt við tilgang DÍS um dýravernd. Á heimasíðu DÍS segir að meginhlutverk félagsins sé skv. lögum þess:

„Að vinna að bættri velferð dýra, taka virkan þátt í umræðu um málefni þeirra á opinberum vettvangi og stuðla að málefnalegri umræðu um dýravelferð.

Að standa vörð um lögvernd dýra og stuðla að góðri lagasetningu og reglubundnu opinberu eftirliti til verndar dýrum.

Að beita sér fyrir fræðslu og upplýsingamiðlun um góða meðferð dýra og hvetja skóla, félagasamtök og einstaklinga til að efla velferð þeirra.“

Ég spyr eins og formaður AO, Fríða Rún Þórðardóttir, í fréttatíma Söðvar2 þann 5. þ.m.: ,Hefur afstaða dýranna verið könnuð?‘ Nei, vitaskuld hefur það ekki verið gert, enda nánast óframkvæmanlegt. Almenn líkindi eru þó fyrir því, að flutningur dýranna með strætó skapi þeim ótta og vanlíðan.

Stuðningsmenn breytingarinnar virðast því fyrst og fremst hugsa um eigin hagsmuni en hvorki velferð dýranna né annarra þeirra, sem með vögnunum þurfa að ferðast.



Höfundur er lögmaður




Skoðun

Sjá meira


×