Innlent

150 viðskiptafræðingar og 54 lögfræðingar mæla göturnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gissur Pétursson er forstjóri Vinnumálastofnunar
Gissur Pétursson er forstjóri Vinnumálastofnunar vísir/Vilhelm
Rúmlega 1100 háskólamenntaðir voru atvinnulausir í janúar ef marka má skrá Vinnumálastofnunar. Skráð atvinnuleysi í janúar var 2,4% og jókst um 0,2 prósentustig frá desember. Gerir það fjölda atvinnulausra um 4000.

Stofnunin sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hún skoraði á forstöðumenn stofnanna ríkisins og framkvæmdastjóra sveitarfélaga að ráða háskólamenntaða atvinnuleitendur til sumarstarfa. Hyggst stofnunin á móti leggja fram fjárstyrk til að létta undir með ráðningunum.

Í yfirlýsingunni segir Vinnumálastofnun að það sé „óþægileg staðreynd“ að á skrá stofnunarinnar væri um þessar mundir að finna fjölda einstaklinga sem búa að viðamikilli og fjölbreyttri háskólamenntun. Nefnir hún í því samhengi að á skrá hennar í janúar voru:

150 viðskiptafræðingar

54 lögfræðingar

33 kennarar

18 verk- og tæknifræðingar

13 einstaklingar með félagsfræðimenntun

og 876 einstaklingar með háskólamenntun af öðru tagi.

Vinnumálastofnun „afar mikilvægt að þetta fólk fái að láta til sín taka á vinnumarkaðnum,“ og beinir því til forstöðumannanna að hugsa til þeirra þegar ráðið verður í sumarstörf. Stofnunin réttir að sama skapi fram hjálparhönd við ráðningarnar.

„Möguleikar væru á því að með hverjum sem ráðinn væri, fylgdi starfsþjálfunarstyrkur (enda væri viðkomandi búinn að vera þrjá mánuði eða lengur á atvinnuleysisskrá) sem næmi annað hvort hálfum eða fullum atvinnuleysisbótum í allt að sex mánuði eða ráðningartímann ef hann er styttri. Fullar bætur eru nú 227.417 kr,“ segir í áskoruninni.

Áhugasamir forstöðumenn eru hvattir til að setja sig í samband við Vinnumálastofnun, hafi þeir áhuga á að ráða til sín háskólamenntað starfsfólk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×