Skoðun

Aumingjarnir sem hættu í skóla?

Davíð Snær Jónsson skrifar
Krefjandi, skemmtilegt og lærdómsríkt. Þessir þrír þættir eiga að einkenna skólagöngu framhaldsskólanema.

Samkvæmt hvítbók menntamálaráðuneytisins frá 2014 útskrifast 44% nemenda ekki á tilsettum tíma eða flosna upp úr skóla. Samkvæmt Velferðarvaktinni er hlutfall fullorðinna án framhaldsskólaprófs á Íslandi hið hæsta sem þekkist á Norðurlöndunum og það fimmta hæsta meðal OECD-ríkja eða um 30%. Brotthvarf úr framhaldsskólum á Íslandi er um 19%, en í Danmörku 8%, Svíþjóð 7%, Finnlandi 9% og Noregi 11%. Meðaltal brotthvarfs í Evrópu er 11%. Það er því sorglegt að horfa upp á slíkan brotinn pott, þegar við Íslendingar toppum hverja OECD mælinguna á fætur á annarri. Miðað við þessar brottfallstölur má draga þá ályktun að sá stuðningur sem er til staðar í skólunum sé ekki nægilegur og þurfi að efla til muna.

Ráðamenn hafa rætt um brottfall í áratugi en hvaða árangri hefur verið náð? Þeirri spurningu get ég ekki svarað og efast um að þú getir það kæri lesandi.

Horfa þarf á hvað hefur farið úrskeiðis í grunnskólanum til að greina hvað er að gerast í framhaldsskólanum. Ég hef áður greint frá því að of margir nemendur flosna upp úr skóla vegna áhugaleysis á námi, en snúa aftur síðar lífsleiðinni, þá í nám sem fellur betur að áhugasviðinu, mögulega eitthvað sem þeir vissu ekki af á sínum tíma að væri í boði þegar grunnskóla lauk. Þessir nemendur eru hluti af þeim 44% nemenda sem ljúka ekki námi á tilsettum tíma.

Afleiðing brottfalls geta verið afar mismunandi, allt frá neyslu vímuefna, til illa launaðra starfa og í sorglegustu tilfellunum sjálfsvíg. Stöðug sjálfsskoðun og ríkjandi staðalímyndir samfélagsins leiða til þess að ungmenni þurfa stöðugt að endurskoða sig og aðlaga sig að þeim staðalímyndum sem eru í samfélaginu.

Framhaldsskólinn á ekki að vera auðveldur og það lærir enginn af því að fá hlutina upp í hendurnar. Við þurfum samt sem áður ekki að setja endalausar hraðahindranir í veg nemenda.

Ég skora á Lilju D. Alfreðsdóttir og Ásmund Einar Daðason að hlusta á nemendur og hagsmunaaðila. Framhaldsskólanemar vilja sjá samráð í verki en ekki tali.

Höfundur er formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×