Innlent

Telur brýnt að ganga úr skugga um hvort lögbrot kunni að hafa verið framin

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Píratar vilja að siðanefnd Alþingis fari ofan í saumana á því hvort að framganga þingmanna hvað varðar endurgreiðslur aksturskostnaðar standist siðareglur þingsins. Þeir telja jafnvel að í einhverjum tilfellum kunni lög að hafa verið brotin.

Hlutverk siðanefndarinnar er að gefa forsætisnefnd ráðgefandi álit á því hvort þingmaður hafi með hátterni sínu brotið gegn ákvæðum siðareglna. Það er Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata sem sendi erindið á forseta Alþingis, en auk siðferðislegra álitaefna telur Jón Þór brýnt að ganga úr skugga um hvort lögbrot kunni að hafa verið framin.

„Það gæti verið svo, og ef svo er þá þurfa menn náttúrlega bara að sæta þeirri ábyrgð sem það er. Þetta snýst um ábyrgð, að fólk sæti bara þeirri ábyrgð ef það gerir mistök, nú menn geta þá líka afsakað sig,“ segir Jón Þór í samtali við Stöð 2.

Tilfelli Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, hefur verið hvað mest til umræðu en hann fékk um 4,6 milljónir króna endurgreiddar vegna útlagðs aksturskostnaðar á síðasta ári. Jón Þór segir erindið þó ekki aðeins beinast að Ásmundi.

„Eins og ég sendi þetta á forseta Alþingis að þá bara skoðum við þetta í heildina. Gerum þetta rétt, gerum þetta vel,“ segir Jón Þór. Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 fyrr í vikunni sagði forseti Alþingis að stefnt verði að því að skýrar upplýsingar um kostnað og greiðslur til þingmanna verði brátt aðgengilegar á heimasíðu Alþingis og kveðst hann sammála ákalli um aukið gagnsæi.

„Það er fullt af atriðum þarna sem mætti alveg laga. En í þessu tilfelli þá snýst þetta um það að það er mögulega ekki verið að fara að þeim reglum, siðareglum sem hafa verið samþykktar, og lögum jafnvel, þannig við byrjum bara að skoða það,“ segir Jón Þór.


Tengdar fréttir

Siðanefnd Alþingis aldrei kölluð til

Siðanefnd Alþingis hefur ekki verið kölluð saman vegna aksturs þingmanna. Tölur frá Alþingi sýna að þingið hefði sparað milljónir ef farið hefði verið að reglum og tilmælum þingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×