Skoðun

Af hverju hlustum við ekki á ungt fólk?

Davíð Snær Jónsson skrifar
Eitt af mörgum vandamálum samfélagsins er að það er ekki hlustað ekki á ungt fólk, þvert á öll svið.

Undirritaður hefur starfað víða í nefndum, félögum og stjórnum með ungu fólki, þar sem það hefur verið allsríkjandi vandamál að þeir eldri hlusti ekki á þá yngri. En af hverju? Ég get gert mér ýmsar tilgátur; eins og það að ungt fólk hafi ekki þroskann þegar kemur að ákvarðanatöku, að ungt fólk geti ekki borið ábyrgð eða það að ungt fólk hafi ekki nægilega reynslu. Öllum slíkum hugmyndum vísa ég á bug eftir að hafa starfað með ungu fólki, sótt viðburði þar sem ungt fólk hefur verið leiðandi í stefnumótun, þar sem ungur tamdi og gamall nam.

Undanfarnar vikur hafa menntamál verið á vörum flestra landsmanna og þrátt fyrir alla umræðuna hafa hinu raunverulegu hagsmunaaðilar ekki verið fengnir að borðinu, þar tel ég að fjölmiðlar og ráðamenn beri samfélagslega ábyrgð. Samfélagið í heild sinni verður að taka það til sín og hlusta á ungt fólk, því við höfum í alvörunni margt til málanna að leggja.

Oft hef ég heyrt eldra fólk tala um það hve ungt fólk hafi það gott í dag, af hverju er það yfirhöfuð að kvarta? „Í þá gömlu góðu daga þurfti maður að vinna og hafa fyrir sínu, en í dag fær ungt fólk allt upp í hendurnar, getur valið sér nám og skreppur til útlanda endrum og eins.“ Ég get verið sammála því að enginn græðir á því að fá hlutina upp í hendurnar og ef að fólk ætlar að ná árangri verður það að leggja á sig aukavinnuna til þess að sjá árangurinn. Hins vegar er verið að leggja stein í götu svo margra ungmenna, sem sýnir sig sem dæmi í háu brottfalli, lítilli kosningaþátttöku, auknu álagi, litlum lesskilning og hárri sjálfsmorðstíðni. Með einföldum, kostnaðarlitlum aðgerðum getum við gert líf svo margra ungra Íslendinga svo mikið bærilegra.

Ráðamenn, opnið augun því staðreyndirnar liggja svart á hvítu. Fáum ungt fólk að borðinu, því í sameiningu náum við árangri.

Í kvöld kæri lesandi munt þú sjá ungt fólk vekja áhrif á samfélagsmiðlum og vekja athygli á einu stærsta hagsmunamáli framhaldsskólanema og ungs fólks. Hlustum á ungt fólk, tökum samtalið, því einungis þannig munum við byggja betri framtíð í sameiningu, með samráði í verki og tali.

Höfundur er formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema.




Skoðun

Sjá meira


×