Körfubolti

Jóhann Þór: Þriðja eða fjórða hraðmótið framundan

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann var ánægður með leik sinna manna í sigrinum á Keflavík.
Jóhann var ánægður með leik sinna manna í sigrinum á Keflavík. vísir/ernir
„Við náðum að herða vörnina. Þetta var vanvirðing þessar fyrstu tíu mínútur. Við fengum flott framlag frá bekknum, strákar sem komu inn og sneru þessu við. Heilt yfir er ég nokkuð sáttur,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur eftir þægilegan sigur á botnliði Hattar í Dominos-deildinni í kvöld.

Höttur leiddi með sex stigum eftir fyrsta leikhlutann og hóf leikinn af miklum krafti. Síðan tóku heimamenn yfir og Jóhann sagði að þeir hefðu einfaldlega lagt meira á sig.

„Það var kraftur í okkur og við vorum að leggja á okkur. Þetta var ekkert alltaf upp á 10 en við töluðum um það fyrir leik að við yrðum að leggja á okkur og þá uppskerum við. Það kom þessar síðustu 30 mínútur.“

Grindvíkingar fengu flott framlag af bekknum í kvöld og meðal annars átti Ingvi Þór Guðmundsson frábæra innkomu og skoraði 22 stig í fyrri hálfleik.

„Hann stóð sig mjög vel og kom þessu í gang sóknarlega ásamt öðrum sem komu inn af bekknum. Hann var flottur í vörn líka og eins og ég sagði þá voru þeir sem komu inn af bekknum góðir og Ingvi mjög flottur í kvöld,“ bætti Jóhann við.

Framundan eru stórleikir hjá Grindvíkingum sem eiga leiki gegn KR, Njarðvík, Stjörnunni og ÍR í næstu fjórum umferðum. Jóhann sér möguleika á því að lyfta sér upp í eitt af fjórum efstu sætunum sem gefur heimaleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

„Ef við setjum upp frammistöðu sem við erum sáttir við þá getum við keppt við hvern sem er. Við erum að fara í Vesturbæinn næst og það er alltaf gaman að fara þangað. Þriðja eða fjórða hraðmót mótanefndar er framundan núna og þetta verða hörkuleikir. Við hlökkum til,“ sagði Jóhann að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×