Handbolti

Hreiðar Levý: Vorum ekki tilbúnir í neitt

Einar Sigurvinsson skrifar
Hreiðar Levý Guðmundsson, markvörður Gróttu.
Hreiðar Levý Guðmundsson, markvörður Gróttu. vísir/stefán
„Þeir voru bara betri frá A til Ö, á öllum sviðum, við áttum ekki breik,“ sagði Hreiðar Levý Guðmundsson, markvörður Gróttu við Vísi, að loknu ellefu marka tapi gegn FH í kvöld.

Sigur FH leit aldrei út fyrir að vera í hættu og Hreiðar útilokar ekki úrslitin endurspegli einfaldlega getumuninn á milli liðanna.

„Ætli það ekki bara. Þetta er efsta liðið og við erum að berjast um fall. Það á að vera munur þarna á toppi og á botni. En ég vona að við eigum meira inni en þetta. Þessi spilamennska er ekki vænleg til árangurs.“

„Við vorum bara ekki tilbúnir í neitt. Alveg sama hvað það var.“

Næstu leikur Gróttu er gegn Stjörnunni. Sá leikur leggst ekkert gríðarlega vel í Hreiðar eftir spilamennsku síns liðs í kvöld.

„Ég veit það ekki, eftir þennan skell. Maður þarf náttúrlega bara að rífa sig upp. Við þurfum bara að gjöra svo vel og girða okkur í brók. Vera tilbúnari, klókari, tilbúnir í þá sem við ætlum að mæta og hvernig við ætlum að spila.“

„Við erum of seinir í allt, bæði í sókn og vörn. Við vitum ekkert hvað við erum að gera. Það er alveg sama hvert er litið, það þurfa allir að gera betur,“ sagði vonsvikinn Hreiðar Levý, að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×