Enski boltinn

Dyche: Pep velur árangur fram yfir unga leikmenn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
„Hvar eru uppöldu leikmennirnir? Hvar?“
„Hvar eru uppöldu leikmennirnir? Hvar?“ Vísir/Getty
Sean Dyche, knattspyrnustjóri Jóhanns Berg Guðmundssonar hjá Burnley, segir kollega sinn hjá Manchester City, Pep Guardiola, hafa gefist upp á ungum leikmönnum svo hann geti náð árangri.

Spánverjinn Guardiola hefur eytt nærri 450 milljónum króna í fjórum félagsskiptagluggum hjá Manchester City. Þá hefur hann ekki leyft einum einasta leikmanni úr akademíu félagsins að fá sæti í byrjunarliði sínu í leikjum City í ensku úrvalsdeildinni.

„Þeir eru með frábært lið, á því er enginn efi. En tímarnir hafa breyst. Í dag þá safnar þú saman bestu leikmönnum heims og býrð til lið úr þeim,“ sagði Dyche á blaðamannafundi fyrir leik Burnley gegn City á morgun.

„Sum af bestu liðum Manchester United undir Sir Alex voru sambland af góðum aðkeyptum leikmönnum og uppöldum mönnum. Hugsanahátturinn er öðruvísi í dag, því kröfurnar í úrvalsdeildinni eru orðnar miklu, miklu hærri.“

Það var áður eitt af einkennum Guardiola að hann leyfði ungu mönnunum að fá tækifæri og hann náði árangri með uppöldum mönnum. Dyche segir það vera liðna tíð.

„Ég man eftir því að þegar Pep var hjá Barcelona þá sagði hann „afhverju ættir þú að kaupa leikmann þegar þú getur spilað á ungu leikmönnunum,“ en meira að segja hann er farinn að kaupa leikmenn í stað þess að spila á ungu mönnunum,“ sagði Sean Dyche.

Manchester City sækir Burnley heim á Turf Moor á morgun. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 12:30.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×