Enski boltinn

Fáir leikmenn hafa bætt sig jafn mikið milli tímabila og Jóhann Berg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum á móti Manchester City.
Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum á móti Manchester City. Vísir/Getty
Burnley varð á laugardaginn aðeins fjórða liðið til að taka stig af Manchester City í ensku úrvalsdeildinni þegar þau mættust á Turf Moor. Heimamenn gátu þakkað Jóhanni Berg Guðmundssyni fyrir stigið en hann jafnaði metin í 1-1 þegar átta mínútur voru til leiksloka. Brasilíski bakvörðurinn Danilo kom City yfir á 22. mínútu en í fyrsta sinn í 26 deildarleikjum tókst liðinu ekki að vinna eftir að hafa skorað fyrsta markið.

Jafntefli gegn langbesta liði ensku úrvalsdeildarinnar eru frábær úrslit fyrir Burnley, sérstaklega í ljósi þess að liðinu hefur ekki gengið vel að undanförnu. Burnley er án sigurs í síðustu níu leikjum en er þrátt fyrir það í 7. sæti deildarinnar.

„Við höfum ekki unnið í nokkrum leikjum í röð en við höfum spilað erfiða leiki og náðum í stig gegn báðum Manchester-liðunum. Við höfum spilað ágætlega og þurfum bara að halda áfram,“ segir Jóhann Berg. „Við höfum verið inni í öllum leikjunum, nema gegn Tottenham á heimavelli. Við þurfum að vera þolinmóðir og við vitum að sigrarnir munu koma.“

Maður leiksins hjá Sky Sports



Kantmaðurinn úr Kópavoginum fékk góða dóma fyrir frammistöðu sína gegn City. Sky Sports valdi hann t.a.m. mann leiksins. Íslenski landsliðsmaðurinn var mikið í boltanum, sinnti varnarvinnunni að venju vel, skapaði þrjú færi og skoraði markið mikilvæga.

Þetta var annað mark Jóhanns Berg á tímabilinu. Hitt kom í 1-2 tapi fyrir Liverpool á nýársdag. Þá, líkt og í leiknum á laugardaginn, var Jóhann Berg vel staðsettur á fjærstönginni og kláraði færið af yfirvegun.

„Þetta var frábær sending hjá [Matt] Lowton. Það var erfitt að klára færið því boltinn skoppaði aðeins fyrir framan mig,“ segir Jóhann Berg um markið sitt. Ederson, markvörður City, var með hönd á bolta en náði ekki að verja. Brassinn átti annars frábæran leik í marki City og varði m.a. meistaralega frá Aaron Lennon í seinni hálfleik.





Jóhann Berg Guðmundsson fagnar eftir að hafa skorað jöfnunarmark Burnley gegn Manchester City. Danilo, sem skoraði mark City, er ekki jafn ánægður með stöðu mála. Burnley er í góðri stöðu í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.vísir/getty


Enginn komið að fleiri mörkum



Auk markanna tveggja hefur Jóhann Berg gefið fimm stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Hann hefur því komið með beinum hætti að sjö mörkum Burnley, fleiri en nokkur annar leikmaður liðsins. Burnley hefur aðeins skorað 21 mark á tímabilinu og Jóhann Berg hefur átt beinan þátt í þriðjungi þeirra sem er ansi flott tölfræði.

Fáir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni hafa bætt sig jafn mikið milli tímabila og Jóhann Berg. Hann átti ágætis spretti í fyrra en meiðsli settu strik í reikning hans. Jóhann Berg meiddist einmitt í heimaleiknum gegn City á síðasta tímabili, eftir að hafa spilað vel í nokkrum leikjum þar á undan, og komst ekki á alvöru flug eftir það.

Í vetur hefur Jóhann Berg sloppið við meiðsli, spilað 25 af 26 leikjum Burnley í ensku úrvalsdeildinni og klárað þá flesta. Enginn leikmaður Burnley hefur komið við sögu í jafn mörgum deildarleikjum í vetur og Jóhann Berg. Hann er ekki bara að spila meira, heldur spila betur og er orðinn lykilmaður í liði Burnley.

Auk þess að hafa átt flott tímabil með Burnley hefur Jóhann Berg aldrei spilað betur með íslenska landsliðinu en í undankeppni HM 2018. Hann er í stöðugri framþróun sem leikmaður og á vonandi enn meira inni.

Vísir/Getty


Ævintýrið á Turf Moor



Jóhann Berg er á góðum stað og í góðum höndum hjá Burnley. Þótt strákunum hans Seans Dyche hafi gengið brösuglega að undanförnu stefnir allt í að þetta verði besta tímabil Burnley í nokkra áratugi. Liðið lenti í 6. sæti efstu deildar tímabilið 1973-74 og 10. sæti tímabilið þar á eftir. Burnley endar væntanlega á svipuðum slóðum í ár sem yrði frábær árangur.

Dyche hefur gert kraftaverk með lið Burnley sem hefur bætt sig milli tímabila án þess að eyða háum fjárhæðum í leikmenn. Hið alræmda annað tímabilið er ekkert að stríða mönnum á Turf Moor.

Burnley gat ekkert á útivelli í fyrra en í ár er staðan önnur. Liðið er með sjötta besta útivallarárangurinn í ensku úrvalsdeildinni og hefur náð í stig á Old Trafford, Stamford Bridge, Anfield og Wembley. Burnley hefur alls náð í 36 stig í vetur en fékk 40 stig allt síðasta tímabil. Framfarirnar eru því miklar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×