Enski boltinn

Messan tók fyrir Ederson í marki Man. City: Hann býr til allar sóknirnar í þessu liði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson tókst að skora framhjá Ederson Santana de Moraes, markverði Manchester City, um helgina en brasilíski markvörðurinn fékk engu að síður mikið hrós í Messunni í gær.

Guðmundur Benediktsson sjá um Messuna í gær og gestir hans voru þeir Hjörvar Hafliðason og Reynir Leósson. Þeir tóku meðal annars fyrir leik Burnley og toppliðs Manchester City þar sem íslenski víkingurinn kom í veg fyrir sigur lærisveina Pep Guardiola.

Hjörvar Hafliðason er mjög ánægður með Ederson, markvörðinn sem Manchester City keypti frá Benfica í sumar. „Hann er ógeðslega góður og ofboðslega vanmetinn,“ byrjaði Hjörvar.

„Hann er besti fótboltamaðurinn í varnarlínu Manchester City. Það er hann sem býr til allar sóknirnar í þessu liði,“ sagði Hjörvar en fékk mikil viðbrögð.

„Rólegur,“ sagði Reynir og Guðmundur Benediktsson endurtók þessa fullyrðingu Hjörvars um þátttöku markvarðarins í sóknarleik markahæst liðs enska boltans.

„Hann er betri í fótbolta en bæði Nicolás Otamendi og Vincent Kompany,“ sagði Hjörvar.

Það má heyra þá félaga ræða mikilvægi Ederson (og rífast aðeins) í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×