Sport

Þúsundir fögnuðu á strætum Philadelphia | Myndir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn fögnuðu í nótt.
Stuðningsmenn fögnuðu í nótt. Vísir/Getty
Þúsundir fögnuðu sigri Philadelphia Eagles í Super Bowl á strætum borgarinnar í gærkvöldi og langt fram eftir nóttu. Þetta var fyrsti sigur Eagles í Super Bowl í 52 ára sögu leiksins og fyrsti meistaratitill félagsins í NFL deildinni síðan 1960.

Philadelphia er annáluð íþróttaborg en stærstu lið hennar hafa ekki notið mikillar velgengni síðustu árin. Þar til í nótt höfðu íþróttalið borgarinnar aðeins unnið einn titil í 35 ár - þegar Philadelphia Phillies vann MLB-meistaratitilinn í hafnabolta.

Fagnaðarhöldin fóru að mestu vel fram að sögn lögregluyfirvalda í borginni. Stuðningsmenn komu saman og fögnuðu, sungu og grétu gleðitárum. Grænum flugeldum var skotið á loft og byggingar baðaðar í grænu ljósi.



Lítið var um óspektir. Einum bíl var velt og nokkrum flöskum kastað. Þá var einn aðili handtekinn fyrir að reyna að klifra nakinn upp ljósastaur.

Reyndar virðast margir í Philadelphia vera áhugasamir um að klifra ljósastaura þegar Eagles gengur vel. Fyrir tveimur vikum, er liðið tryggði sér Þjóðardeildartitilinn, brugðust yfirvöld við því með því að bera feiti á staurana en með takmörkuðum árangri.

Í gær var gengið enn lengra og fundið nýtt efni til að bera á staurana. Lögreglan ákvað að bera vökvakerfisolíu [e. hydraulic fluid], sem stundum er kölluð glussi, með að því er virðist góðum árangri.



Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
NFL

Tengdar fréttir

Ernirnir stoppuðu Tom Brady á ögurstundu og unnu Super Bowl

Philadelphia Eagles varð í nótt NFL-meistari í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir 41-33 sigur á fráfarandi meisturum New England Patriots í Super Bowl, úrslitaleik ameríska fótboltans, í Minneapolis í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×