Innlent

Ný handtök við fæðingar

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Ljósmóðirin Edda Sveinsdóttir hefur sérhæft sig í spangaráverkum kvenna við fæðingar. Hún segir alvarlega áverka jafnan hafa verið algengari á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum.

Í samvinnu við norska sérfræðilækna er nú verið að taka upp ný handtök við fæðingar sem vonir standa til að hafi jákvæð áhrif.

„Nú látum við barnið fæðast í tveimur hríðum. Við stýrum því svolítið þannig og leiðbeinum konunni hvernig hún á að anda sig í gegnum það. Við beitum spangarstuðningi alveg þar til öxlin er fædd á barninu. Á milli hríða höldum við mjög fast. Þetta getur verið mjög erfitt fyrir okkur ljósmæður af því þetta er mikill stuðningur," segir Edda Sveinsdóttir, ljósmóðir.

Edda Sveinsdóttir ljósmóðir
Þessi aðferð, þar sem stuðningi er beitt þar til neðri öxlin er komin út, var tekin upp í desember og á því reynsla eftir að koma á hana. Samkvæmt nýjustu tölum fór tíðni alvarlegra áverka þó lækkandi í janúar, og var 3,87% samanborið við 5,4% í desember og 6,5% í nóvember. Edda telur verkefnið mikilvægt þar sem alvarlegir áverkar geta skert lífsgæði kvenna verulega. 

„Þetta getur til dæmis orðið til þess að þær halda ekki hægðum. Þær geta misst loft hvar sem er og hvenær sem er. Þær hafa sársauka frá örvefjasvæðum á svæðinu og sársauka við samfarir," segir Edda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×