Innlent

Grunaður um ítrekað ofbeldi gegn fyrrverandi sambýliskonu

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Maðurinn braut nálgunarbann gegn konunni.
Maðurinn braut nálgunarbann gegn konunni. NordicPhotos/Getty
Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni sem var handtekinn í janúar grunaður um ofbeldi gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni og að hafa haft í hótunum við hana.

Segir í úrskurðinum að maðurinn hafi ráðist á konuna í verslun í Reykjavík, ýtt henni upp að vegg og rifið í hár hennar svo lokkur rifnaði. Konan var í uppnámi þegar lögreglu bar að garði og sagðist óttast manninn. Var hún í kjölfarið flutt á slysadeild vegna verks í hægra eyra og höfuðleðri. Maðurinn var á bak og burt þegar lögregla kom í verslunina en var stuttu síðar handtekinn í Garðabæ. Þá játaði maðurinn að hafa ráðist á konuna.

Maðurinn var með nálgunarbann á sér gagnvart konunni sem framlengt var í desember. Hafði konan dvalið í Kvennaathvarfinu og óttaðist að maðurinn myndi ofsækja hana yrði bannið ekki framlengt.

Þá er maðurinn grunaður um fyrri brot gegn konunni, meðal annars þegar hún var ófrísk að barni þeirra. Eftir fæðingu þess hafi komið upp atvik þar sem maðurinn hélt konunni og sló hana ítrekað í andlitið.

Í úrskurðinum kemur fram að maðurinn hafi hlotið fjögurra mánaða fangelsisdóm árið 2016 með skilorði til tveggja ára fyrir fíkniefnalagabrot. Er það mat lögreglu að maðurinn hafi rofið skilorð sitt með því að standa ekki við skilyrði sem sett voru í héraðsdómi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×