Erlent

Kínverjar taldir prófa nýtt ofurvopn á sjó

Samúel Karl Ólason skrifar
Vopn sem þessi notast við rafsegulsvið til þess að skjóta skotum mun lengra og hraðar en gengur og gerist með hefðbundin skotvopn.
Vopn sem þessi notast við rafsegulsvið til þess að skjóta skotum mun lengra og hraðar en gengur og gerist með hefðbundin skotvopn.
Hernaðarsérfræðingar segja Kínverja vera að prófa nýja tegund vopna á sjó. Vopnið sem á ensku kallast „Rail Gun“ hefur aldrei verið prófað á sjó svo vitað sé. Yfirvöld Kína hafa á undanförnum árum varið miklu fé og mikilli orku í rannsókn nýrra vopna til að vega á móti yfirburðum Bandaríkjanna á höfum heimsins.

Vísir/GraphicNews
Vopn sem þessi notast við rafsegulsvið til þess að skjóta skotum mun lengra og hraðar en gengur og gerist með hefðbundin skotvopn. Þau ferðast bæði hraðar en eldflaugar og lengra en hefðbundin skot.

Gallinn er þó sá að vopnin krefjast gífurlegrar orku og er það helsta ástæða þess að vopn þessi hafa að mestu eingöngu verið til á teikniborðum og í kvikmyndum og tölvuleikjum.

Samkvæmt frétt Financial Times birtist í síðustu viku mynd á samfélagsmiðlum af kínverska herskipinu Haiyang Shan þar sem það var við bryggju í Wuchang.



Á skipinu var stærðarinnar vopn sem sérfræðingar segja líta út fyrir að vera frumgerð af áðurnefndu vopni. Einnig mátti sjá gáma á skipinu sem taldir eru hýsa rafhlöður, ljósavélar og fleira sem til þarf til að skjóta slíku vopni.

Bandaríkin byrjuðu að þróa „Rail gun“ árið 2005 og stóð til að prófa slíkt vopn á skipi árið 2016. Hætt var við verkefnið vegna gífurlegs kostnaðar.

Í nóvember 2016 gerðu Bandaríkin þó tilraun með slíkt vopn á landi og skutu 16 kílóa skotum sex sinnum. Skotin ferðuðust á sjöföldum hljóðhraða sem er mun hraðar en skot úr hefðbundnum byssum.

Rannsakendur sjóhersins segja að á endanum muni vopnið geta skotið um tíu skotum á mínútu og hverju skoti rúmlega 100 sjómílur, eða um 180 kílómetra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×