Innlent

Engin meðferð fyrir fólk með matarfíkn

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Facebook-hópurinn Matarfíkn var stofnaður fyrir nokkrum vikum og telja meðlimir hópsins 250 manns. Valgeir Pálsson, stofnandi hópsins, segir þörf fyrir að upplýsa betur um matarfíkn, matarfíkn sé sjúkdómur þar sem ofát sé birtingarmynd andlegs og tilfinningalegs vanda.

„Ég hef alveg orðið næstum 200 kíló vegna matarfíknarinnar. Það er alvarlegt þegar fólk er orðið svona þungt. Svo reyndi ég hjáveituaðgerð en það virkaði ekki sem skyldi, ég léttist til að byrja með en þyngdist svo aftur. Þá spyr maður sig hvort þetta sé ekki andlegt og tilfinningalegt mein því maður er að borða yfir sársauka innra með sér," segir Valgeir.

Hann segir kvíða og þunglyndi oft fylgikvilla matarfíknar og að offita valdi líkamlegum kvillum. Matarfíkn sé því sannarlega heilbrigðisvandi en að hvorki Landspítali né heimilislæknar viðurkenni sjúkdóminn.

„Læknarnir seggja: Borðaðu minna og hreyfðu þig meira. En þetta er erfiðara en það," segir Valgeir og bætir við að á Landspítalanum sé unnið með átröskunarsjúkdóma en engin meðferð sé fyrir fólk með matarfíkn, sem sé sambærileg meðferð sem býðst áfengissjúklingum.

Matarfíknarmiðstöðin veiti meðferð, sem sé ekki niðurgreidd af ríkinu og því kosti fimm vikna meðferð tæplega áttatíu þúsund krónur.

„Ég myndi vilja sjá svona  miðstöð, og meðferð á vegum hins opinbera - einhverja eina deild fyrir fólk sem er að glíma við matarfíkn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×