Erlent

Tarantino biðst afsökunar á ummælum um Polanski: „Ég var fáfróður“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Tarantino segi hafa verið fáfróður og að hann hafi haft rangt fyrir sér.
Tarantino segi hafa verið fáfróður og að hann hafi haft rangt fyrir sér. Vísir/Getty
Leikstjórinn Quentin Tarantino hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann biðst afsökunar á fimmtán ára gömlum ummælum sínum um kynferðisbrot kollega síns Roman Polanski sem voru rifjuð upp í vikunni.

Í viðtali við Howard Stern árið 2003 sagði Tarantino að Samantha Geimer, konan sem Polanski braut gegn, hafi verið samþykk samræði við Polanski sem var þá 34 ára gamall.

Í viðtalinu frá 2003 heyrist Tarantino ræða við útvarpsmanninn Howard Stern og samstarfskonu hans Robin Quivers. Þau eiga eftirfarandi samtal eftir að Quivers minnir Tarantino á að fórnarlamb Polanski var lyfjuð og ölvuð þegar ofbeldið átti sér stað.

Tarantino: Þannig var þetta alls ekki. Hún vildi þetta og deitaði hann og...

Quivers: Hún var þrettán ára!

Tarantino: Og meðan ég man, við erum að tala um siðferði Bandaríkjanna, ekki siðferði í Evrópu og allt það.

Stern: Bíddu nú hægur. Ef þú stundar kynlíf með þrettán ára stúlku og þú ert fullorðinn maður, þá veistu að það er rangt.

Quivers: ...gefur henni áfengi og pillur...

Tarantino: Heyrðu, hún var til í þetta.

„Ég vil biðja Samönthu Geimer opinberlega afsökunar á yfirlætislegum ummælum mínum í þætti Howard Stern um hana og þann glæp sem hún mátti þola,“ skrifaði Tarantino.

„Nú fimmtán árum seinna átta ég mig á hversu rangt ég hafði fyrir mér. Geimer var nauðgað af Roman Polanski. Þegar Howard vakti máls á Polanski lék ég málsvara myrkrahöfðingjans. Ég tók ekki tillit til tilfinninga Geimer og mér þykir það mjög leitt. Þannig að, ungfrú Geimer, ég var fáfróður og ótillitssamur og umfram allt hafði ég rangt fyrir mér.“

Hefur ekki áhyggjur af áliti annarra

Geimer sjálf svaraði Tarantino í viðtali við The New York Daily News í vikunni og sagðist hún sannfærð um að hann væri meðvitaður um að hann hefði rangt fyrir sér.

„Ég vona að hann hætti að gera sjálfan sig að fífli með því að tala á þennan hátt,“ sagði Geimer.

„Ég er ekki í uppnámi, en mér myndi líklega líða betur ef hann áttar sig á því að hann hafði rangt fyrir sér, núna 15 árum seinna, eftir að hafa heyrt staðreyndirnar.“

Geimer sagðist jafnframt vera aðdáandi kvikmynda Tarantino og segist vera tilbúin að fyrirgefa honum ummælin í ljósi þess að hann hafi nýlega stigið fram og stutt Umu Thurman og aðra þolendur kynferðisofbeldis.

„Það skiptir mig ekki máli hvað öðru fólki finnst. Það hefur ekki áhrif á mitt líf. ÉG veit hvað gerðist. Ég hef ekki þörf fyrir að annað fólk hafi skoðun á því hvernig það er að vera nauðgað þegar maður er þrettán ára,“ sagði Geimer.

„Enginn þarf að vera reiður fyrir mína hönd. Það er í lagi með mig.“


Tengdar fréttir

Tarantino svarar fyrir sig

„Ég neyddi hana ekki í bílinn. Hún gerði þetta því hún treysti mér og hún trúði mér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×