Enski boltinn

„Ég er hundrað prósent saklaus“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jay Rodriguez fagnar marki á móti Liverpool.
Jay Rodriguez fagnar marki á móti Liverpool. Vísir/Getty
Jay Rodriguez, framherji West Bromwich Albion, var í gær ákærður af enska knattspyrnusambandinu fyrir kynþáttafordóma gegn Gaetan Bong hjá Brighton í leik liða þeirra á dögunum.

Kamerúnmaðurinn Gaetan Bong heldur því fram að atvikið hafi átt sér stað í 2-0 sigri West Brom 13. janúar síðastliðinn. Bong sagði dómara leiksins strax frá þessu.

Jay Rodriguez segist ekki trúa því að hann hafi fengið á sig þessa kæru. „Ég er algjörlega niðurbrotin og get bara ekki trúað því að ég sé kominn í þessa stöðu. Ég neita þessum fölsku ásökunum hundrað prósent og ég mun sækja mér rétta lögfræðiaðstoð til að sanna sakleysi mitt,“ skrifaði Jay Rodriguez á Twitter.



Martin Atkinson dómari tók ekki á málinu í leiknum sjálfum en skrifaði um það í skýrslu sína um leikinn. Hann ræddi þetta samt við fjórða dómarann.

Gaeten Bong fór síðan á Twitter eftir leikinn og ýjaði því að Rodriguez hafi verið með kynþáttaformdóma gegn sér.

„Sum orð ættu menn ekki að láta falla á fótboltavellinum og þá alls ekki leikmenn. Orð Rodriguez eru ófyrirgefanleg fyrir mann eins og mig,“ skrifaði Gaeten Bong.







Knattspyrnustjórarnir Chris Hughton hjá Brighton og Alan Pardew hjá West Brom, ræddu heillengi við dómarann eftir leikinn en voru ekki tilbúnir að segja frá því hvað fór þeim á milli.

West Bromwich Albion hefur lýst yfir fullum stuðningi við Jay Rodriguez í þessu máli og það er alveg ljóst að hann mun berjast fyrir sakleysi sínu þegar hann kemur fyrir agnefnd enska sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×