Innlent

Al­vöru vetrar­veður í kortunum: „Ekkert ferða­veður þessa helgi“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það verður hvassviðri og éljagangur á höfuðborgarsvæðinu á morgun og mjög slæmt veður víða um land samkvæmt veðurspám.
Það verður hvassviðri og éljagangur á höfuðborgarsvæðinu á morgun og mjög slæmt veður víða um land samkvæmt veðurspám. vísir/hanna
Það verður ekkert ferðaveður á landinu um  helgina að sögn Þorsteins V. Jónssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Þetta lítur svolítið skrautlega út,“ segir Þorsteinn aðspurður um hvernig veðurspáin lítur fyrir helgina. Dagurinn í dag verði þokkalegur en svo byrjar að hvessa í kvöld undir Eyjafjöllum og í Mýrdal. Í nótt mun síðan hvessa í Öræfum og fylgir þessu hvassviðri snjókoma á öllu sunnanverðu landinu.

„Svo gengur þetta líka yfir Austurlandið í fyrramálið, hvassviðri og hríðaveður, og síðan á morgun snýst í vestan storm eða rok og það verður jafnvel ofsaveður á Suðausturlandi annað kvöld,“ segir Þorsteinn.

Vont og leiðinlegt veður líka allan sunnudaginn

Þessum vestanstormi fylgir hríðaveður, snjókoma og í raun léleg færð um allt land.

„Það er varla hægt að mæla með neinum ferðalögum þessa helgi því það verður áfram vont og leiðinlegt veður allan sunnudaginn.“



Sjá einnig:
Veðurvefur Vísis

Þorsteinn segir að á morgun verði veðrið hvað verst undir Eyjafjöllum og í Mýrdal.

„Annað kvöld þá gengur þetta svo austur á Kirkjubæjarklaustur og að Öræfum og þá er í raun allt Suðausturlandið undir,“ segir Þorsteinn og ítrekar að á Suðausturlandi sé jafnvel von á ofsaveðri sem eru 11 gömul vindstig.

Hvassviðri og dimm él á höfuðborgarsvæðinu

Það verður síðan mjög blint og hríðaveður á vestanverðu landinu á morgun og á höfuðborgarsvæðinu má búast við hvassviðri og dimmum éljum þannig að það gæti orðið blint með köflum. Vegfarendur á höfuðborgarsvæðinu þurfa því líka að hafa varann á í umferðinni.

Hvað varðar Norðurlandið þá segir Þorsteinn að þar verði talsverð mikil snjókoma og þá sérstaklega á norðvestanverðu landinu. Austurlandið virðist sleppa best fram að aðfaranótt sunnudags en þá hvessir líka mikið þar.

„Það er sem sagt ekkert ferðaveður þessa helgi. Fólk ætti bara að halda sig inni ef það getur og fylgjast með spánum og veðrinu og festa niður allt lauslegt sem gæti fokið,“ segir Þorsteinn og bætir við að alvöru vetrarveður sé í kortunum.

Veðrið byrjar síðan að ganga niður á sunnudagskvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×