Tottenham vann Lundúnarslaginn

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Harry Kane hefur verið sjóðheitur í vetur. Hann var hetja Spurs í dag eins og svo oft áður.
Harry Kane hefur verið sjóðheitur í vetur. Hann var hetja Spurs í dag eins og svo oft áður. vísir/getty
Tottenham vann fyrr í dag Lundúnarslaginn gegn erkifjendunum í Arsenal, 1-0.

Sigurmarkið skoraði markahæsti leikmaður deildarinnar, Harry Kane, með glæsilegum skalla eftir fyrirgjöf Ben Davies af vinstri kantinum. Var þetta 23. mark Kane í deildinni.

Sigurinn var verðskuldaður en gestirnir í Arsenal sköpuðu litla sem enga hættu við mark Tottenham og náði nýju mennirnir Pierre-Emerick Aubameyang og Henrikh Mkhitaryan sér ekki á strik í leiknum.

Alexander Lacazette fékk frábært tækifæri í uppbótartíma til að jafna leikinn en honum voru mislagðir fæturnir og skaut hann framhjá.

Með sigrinum setur Tottenham pressu á Manchester United í baráttunni um annað sæti. Eru með 52 stig, fjögur færri en United, sem eiga auk þess leik til góða.

Arsenal er hins vegar í miklu basli. Þeim hefur ekki enn tekist að halda markinu hreinu á árinu og eru í sjötta sæti, heilum 24 stigum á eftir toppliði Manchester City.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira