Innlent

Stærsti jarðskjálfti sem mælst hefur í Öræfajökli reið yfir í morgun

Birgir Olgeirsson skrifar
Öræfajökull minnti á sig í morgun.
Öræfajökull minnti á sig í morgun. vísir/gunnþóra
Skjálfti að stærð 3,6 mældist í Öræfajökli klukkan 05:05 í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá náttúruvásérfræðingi hjá Veðurstofu Íslands en þar segir að um 10 eftirskjálftar mældust í kjölfarið. Jarðskjálftinn fannst á Hofi í Öræfasveit en flestir í Öræfasveit sváfu meðan hann reið yfir.

Jarðskjálftinn er sá stærsti sem mælst hefur í Öræfajökli, en fyrsti jarðskjálftamælirinn var settur upp við Kvísker árið 1976. Skjálftinn mældist í öskjunni, um einn kílómetra suðaustur af miðju ísketilsins sem myndaðist í upphafi nóvembermánaðar á síðasta ári. Nokkur óvissa er í dýptarákvörðun skjálftans, en hann virðist vera á um tveggja til fjögurra kílómetra dýpi.

Öræfajökull hefur sýnt merki um aukna virkni í rúmt ár. Sér í lagi jókst virknin sl. haust. Tveir aðrir jarðskjálftar stærri en 3 hafa mælst síðan þá (M3,5 þann 3. október 2017 og M3,1 þann 18. janúar 2018).

Engar markverðar breytingar hafa sést undanfarnar vikur í öðrum vöktunargögnum þ.m.t. aflögunargögnum, vatnamælingum og gasmælingum. Yfirlitsflug, til að mæla yfirborðsbreytingar á jöklinum, verður við fyrsta tækifæri. Mikilvægt er að fylgjast áfram með aflögun á jökulyfirborði þar sem hún getur endurspeglað breytingar í jarðhitakerfinu. Auk þess eru gervitunglamyndir notaðar við eftirlit á aflögun jökulsins, en engar merkjanlegar breytingar hafa sést þetta árið (síðasta gervatunglamyndin er frá lokum janúar).

Viðvörunarlitur fyrir flug er áfram gulur fyrir Öræfajökul. Veðurstofan vaktar allan sólahringinn og bregst við, mælist merkjanlegar breytingar á virkni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×