Enski boltinn

Upphitun: Stórleikur í hádeginu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sex leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í dag og byrjar 27. umferðin með stórslag nágrannaliðanna Tottenham og Arsenal.

Bæði lið þurfa mikið á stigunum þremur að halda í baráttunni um fjórða sætið. Spurs er í 5. sæti aðeins stigi á eftir Chelsea á meðan Arsenal er í 6. sætinu, fjórum stigum á eftir Tottenham. Skytturnar koma inn í þennan leik eftir að hafa valtað yfir Everton á heimavelli sínum í síðustu umferð á meðan Tottenham gerði skrautlegt 2-2 jafntefli við Liverpool þar sem dómarinn Jonathan Moss var í aðalhlutverki.

Gylfi Þór Sigurðsson er væntanlegur aftur í byrjunarlið Everton þegar liðið fær Crystal Palace heim en hann var hvíldur í stórtapinu gegn Arsenal. Palace hefur gert 1-1 jafntefli í síðustu tveimur leikjum sínum og hefur náð að skora í öllum deildarleikjum sínum á nýju ári.

Burnley með Jóhann Berg Guðmundsson innanborðs ferðast suður til Wales og mætir Swansea. Svanirnir komust í fyrsta skipti í langan tíma upp úr fallsæti eftir síðustu umferð og hafa líklegast engan áhuga á að fara þangað aftur og munu því taka hressilega á móti liði sem hefur ekki unnið deildarleik síðan 12. desember.

David Moyes og lærisveinar hans í West Ham taka á móti Watford í Lundúnum. Liðin eru í 11. og 12. sæti úrvalsdeildarinnar og munar þremur stigum þar á milli. Þau munu þó ekki hafa sætaskipti nema West Ham sigri með 6 marka mun þar sem markatala Hamranna er mun óhagstæðari.

Stoke fær nýliða Brighton í heimsókn á bet36 völlinn. Peter Crouch og félagar eru komnir í fallsæti á markatölu en þó munar aðeins þremur stigum á þeim og Brighton í 13. sætinu. Hörku fallslagur í vændum í Miðlöndunum.

Lokaleikur dagsins er svo viðureign Manchester City og Leicester á Etihad vellinum. Eftir jafnteflið við Burnley í síðustu umferð minnkaði forysta City á toppnum niður í 13 stig. Leicester gerði einnig 1-1 jafntefli í síðustu umferð og eru bæði lið því hungruð í að komast aftur á sigurbraut.

Leikir dagsins:

12:00 Tottenham - Arsenal, í beinni á Stöð 2 Sport

15:00 Everton - Crystal Palace

15:00 Stoke - Brighton

15:00 Swansea - Burnley

15:00 West Ham - Watford

17:30 Manchester City - Leicester, í beinni á Stöð 2 Sport




Fleiri fréttir

Sjá meira


×