Innlent

Segir marga vinstri menn enn reiða út í sig

Samúel Karl Ólason skrifar
Katrín segir þörf á kerfisbreytingum svo að hægt sé að auka trú almennings á stjórnmálin.
Katrín segir þörf á kerfisbreytingum svo að hægt sé að auka trú almennings á stjórnmálin. vísir/stefán

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir marga vinstri menn enn vera reiða út í sig fyrir að ganga í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum. Hún er þó staðföst á því að um rétta ákvörðun hafi verið að ræða og hefur sett sér það markmið að endurvekja traust almennings á stjórnmálum og stjórnmálamönnum eftir nokkrar skammlífar ríkisstjórnir undanfarinna ára.

Þetta sagði Katrín í viðtali við Guardian sem birt var í dag.

Í viðtalinu segist Katrín þekkja þá Bjarna Benediktsson og Sigurð Inga Jóhannsson vel og að stjórnarsamstarfið gangi sömuleiðis vel. Hún segir það hafa verið hárrétta ákvörðun að ganga til ríkisstjórnarsamstarfsins.

Þá sagðist hún hafa litið á málið á þann veg að til þess að breyta kerfinu þurfi að hafa alla við borðið. Ekki væri hægt að leggja línur eftir því hvað hverjum og einum þætti rétt eða rangt.

Katrín segir þörf á kerfisbreytingum svo að hægt sé að auka trú almennings á stjórnmálin. Það væri ákveðin áhætta falin í því að flokkar á mismunandi stöðum á hinu pólitíska rofi ynnu saman.

„En ég trúi því heilshugar að þetta sé tækifæri fyrir okkur til að endurskoða og finna okkur á ný.“

Í viðtalinu er einnig farið yfir bakgrunn Katrínar sem bókmenntafræðingur og áhuga hennar á sakamálasögum. Hún segir þær þjóna henni vel þar sem megin þema þeirra sé að engum sé treystandi. Hið sama eigi við stjórnmálin að mestu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.