Íslenski boltinn

Tobias Thomsen fer frá KR í Val: Við Rúnar náðum ekki samkomulagi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tobias Thomsen í leik með KR á móti Val. Nú klæðist hann rauðu í sumar.
Tobias Thomsen í leik með KR á móti Val. Nú klæðist hann rauðu í sumar. Vísir/Anton
Valsmenn hafa krækt í markahæsta leikmann KR-liðsins á síðustu leiktíð því Tobias Thomsen hefur ákveðið að yfirgefa Vesturbæinn og semja við Íslandsmeistarana.

Tobias Thomsen skoraði níu mörk fyrir KR í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð og skoraði tveimur mörkum meira en næsti maður sem var Óskar Örn Hauksson.

Auk þess að skora 9 mörk í deildinni þá skoraði Thomsen langmest hjá KR-liðinu samanlagt í deild og bikar eða 13 mörk í 25 leikjum.

„Ég átti frábæran tíma hjá KR og var ánægður þar. Ég átti góðar viðræður við Rúnar (Kristinsson) en við náðum ekki samkomulagi,“ sagði Tobias Thomsen í samtali við fótbolta.net.

Danski framherjinn er mjög spenntur að koma aftur til Íslands en hann kemur til landsins á morgun og skrifar þá undir Val.

Það má líka heyra á Tobias Thomsen að hann sé spenntur fyrir Evrópukeppninni en eins og kunnugt er þá misstu KR-ingar af Evrópukeppninni í fyrsta sinn í áratug.

„Um leið og ég kom aftur til Danmerkur eftir tímabilið þá vildi ég fara aftur til Íslands. Ég elska landið og fólkið þar. Fólkið er jarðbundið og tekur þér opnum örmum," sagði Tobias við Fótbolta.net en það má lesa allt viðtalið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×