Innlent

Vilja opinbera rannsókn og kröfu í dánarbú látins starfsmanns

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Talið er að konan hafi dregið sér fé á árunum 2010-2015 með greiðslu á tilhæfulausum reikningum að upphæð rúmlega 30 milljónum króna.
Talið er að konan hafi dregið sér fé á árunum 2010-2015 með greiðslu á tilhæfulausum reikningum að upphæð rúmlega 30 milljónum króna. Vísir/Vilhelm
Stjórn Malbikunarstöðvarinnar Höfða samþykkti á stjórnarfundi í gær að fela lögmanni Höfða að óska eftir opinberri rannsókn og undirbúa kröfu í dánarbú látins starfsmanns, en grunur er uppi um að hún hafi dregið að sér fé.

Talið er að konan hafi dregið sér fé á árunum 2010-2015 með greiðslu á tilhæfulausum reikningum að upphæð rúmlega 30 milljónum króna. Samkvæmt tilkynningu frá Höfða eru engar vísbendingar um aðild annarra starfsmanna fyrirtækisins að meintum brotum.

Í skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar segir að grunur um misferli, sem kom upp eftir fyrirspurn frá lögmanni dánarbús starfsmannsins, sé á rökum reistur.

Rannsókn á bókhaldsgögnum, reikningum, greiðslubókum og færsluyfirlitum sýni glögglega með hvaða hætti viðkomandi starfsmaður, sem var deildarstjóri sölu- og fjármáladeildar, nýtti sér aðstöðu sina til þess að draga sér fé með nokkuð reglubundnum hætti.

Þannig hafi hún notfært sér nafn fyrirtækis sem áður var í eigu eiginmanns hennar og gaf út reikninga á Malbikunarstöðina í nafni þess.

Stjórn Höfða hefur ákveðið að boða eins fljótt og kostur er til aðalfundar fyrirtækisins, að höfðu samráði við eigendur. Þar verður ný stjórn kosin.

Í ljósi formlegrar ábyrgðar stjórnar á innra eftirliti, hafa þeir tveir stjórnarmenn, sem sátu í stjórn á umræddu tímabili tilkynnt eigendum að þeir hafi ákveðið að stíga til hliðar, gefa ekki kost á sér áfram, þannig að nýir stjórnarmenn komi að málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×