Íslenski boltinn

Víkingar fylla í skarð Castillion með öðrum hollenskum framherja

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rick ten Voorde spilar með Víkingum í sumar.
Rick ten Voorde spilar með Víkingum í sumar. vísir/getty
Víkingur er búinn að ganga frá tveggja ára samningi við hollenska framherjann Rick ten Voorde og mun hann spila með liðinu í Pepsi-deildinni í sumar. Heimir Gunnlaugsson, formaður meistaraflokksráðs Víkings, staðfestir þetta við Vísi.

Ten Voorde á að fylla í skarð Geoffrey Castillion sem fór á kostum fyrir Víking síðasta sumar en gekk svo í raðir FH undir lok síðasta árs.

Þessi 26 ára gamli framherji er hávaxinn eins og Castillion en hann er tæpir 190 cm. Hann er uppalinn hjá FC Emmen þar sem hann hóf ferilinn en hann var svo meðal annars á mála hjá N.E.C, Paderborn í Þýskalandi og nú síðast Hapoel Ramat Gan í B-deildinni í Ísrael.

Hann spilaði átta leiki fyrir ísraelska liðið án þess að skora en hann var nokkuð duglegur við að skora fyrir Emmen, Almere og RKC Waalwijk í B-deildinni í Hollandi.

Ten Voorde er fimmti leikmaðurinn sem Víkingar fá til sín í vetur en áður voru komnir fyrrverandi landsliðsmiðvörðurinn Sölvi Geir Ottesen úr atvinnumennsku, Gunnlaugur Hlynur Birgisson frá Ólsurum, Sindri Scheving frá Val og Trausti Sigurbjörnsson frá Haukum.

Víkingar eru búnir að missa Castillion í FH eins og fram hefur komið og þá fór bakvörðurinn Ívar Örn Jónsson í Val og Viktor Bjarki Arnarsson gerðist spilandi aðstoðarþjálfari HK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×